Auknar álögur á útsvar í Sveitarfélaginu Árborg
Sveitarfélagið Árborg vill vekja athygli íbúa á því að álag var sett á útsvar frá upphafi árs 2024.
Þetta þýðir að tekjur sveitarfélagsins munu aukast á þessu ári, en áhrifin á skattgreiðendur koma fram í uppgjöri á næsta ári, sumarið 2025.
Þessar álögur verða sýnilegar við uppgjör opinberra gjalda ársins 2024, þar sem íbúar munu sjá hækkun á útsvari í niðurstöðu skattframtals. Sveitarfélagið er meðvitað um að þetta aukna álag getur verið íþyngjandi fyrir íbúa, sérstaklega í ljósi þess að margir eru að glíma við aukinn kostnað á ýmsum sviðum. Það er því mikilvægt að íbúar hafi þessar breytingar í huga þegar þeir skipuleggja fjármál sín næsta árið.
Álagningin er í samræmi við þær upplýsingar sem komu fram í frétt um fjárhagsáætlun Árborgar fyrir árið 2024 sem kynnt var í lok árs 2023. Þar kom fram að nauðsynlegt væri að grípa til aðgerða eins og þessarar til að tryggja rekstrarhæfi og viðhalda nauðsynlegri þjónustu.
Sveitarfélagið vill þó taka fram að þessi aukning á útsvari er aðeins hugsuð til að hámarki tveggja ára og er ekki ætlað að verða varanleg. Markmiðið er að styrkja fjárhag sveitarfélagsins tímabundið, á meðan unnið er að öðrum langtímalausnum til að mæta fjárhagslegum áskorunum.
Sveitarfélagið hvetur íbúa til að kynna sér þessar breytingar og vera meðvitaðir um að þær muni koma fram í framtíðarskattgreiðslum, sumarið 2025. Hér að neðan er hægt að sjá áætlaða viðbótarálagninu miðað við mismunandi heildartekjur.
Mánaðarlaun | Árslaun | Álag á útsvar | Áætlað til greiðslu 1. júní 2025 |
416.667 | 5.000.000 | 1,474% | 73.700 |
666.667 | 8.000.000 | 1,474% | 117.920 |
833.333 | 10.000.000 | 1,474% | 147.400 |
1.000.000 | 12.000.000 | 1,474% | 176.880 |
1.250.000 | 15.000.000 | 1,474% | 221.100 |