Bókasafn Árborgar á Selfossi lokað lengur vegna framkvæmda
18. september 2019
Bókasafnið á Selfossi verður því miður lokað lengur vegna framkvæmda en reynt verður að opna aftur eins fljótt og kostur er. Íbúar og gestir eru beðnir velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda en bæði iðnaðarmenn og starfsmenn vinna hörðum höndum af því að gera bókasafnið okkar klárt aftur til opnunar. Stór hluti af framkvæmdunum er færsla þjónustuvers Ráðhúss Árborgar sem verður eftir breytingar staðsett á 1.hæð ásamt bókasafninu. Íbúar sem sækja þjónustu bókasafnsins og ráðhússins verða því varir við talsverðar breytingar en gengið verður inn í báðar stofnanir um aðalinngang þessa sögufræga húss, sem snýr að Austurvegi.
Í framkvæmdunum núna er m.a. verið að skipta um gólfefni á öllu safninu, klæðning í lofti og veggjum löguð, sett upp nýtt afgreiðsluborð fyrir bókasafnið og vesturhelmingur safnins stækkaður ásamt því að bæta við brunaútgangi. Austanmegin er vinnuaðstaða starfsmanna stækkuð og sett upp afgreiðsluborð fyrir þjónstuver Ráðhúss Árborgar.
Markmiðið er að framkvæmdirnar hafi jákvæðar breytingar á starfsemi bóksafnsins og ráðhússins til framtíðar og þjónustan við íbúa verði enn betri.
Minnum á opnunartíma bókasafnanna á Stokkseyri og Eyrarbakka
Mánudaga frá 16-18
Þriðjudaga frá 19-21
Fimmtudaga frá 16-18
Kortin gilda hjá öllum bókasöfnum Árborgar svo endilega rennið á ströndina til að fá ykkur bækur og skila (skilalúgan hér er alltaf opin líka).
Allar bækur í útláni hafa verið framlengdar til 1. nóvember