Bókasafn Árborgar kynnir Janoir 2025
Janúarmánuður á Bókasafni Árborgar heitir nú „Janoir“ og er helgaður glæpasögum.
Sú hugmynd að kalla janúarmánuð „Janoir“ kviknaði hjá blóðþyrstum bókaverði safnsins í janúar 2024 og eftir frjósama og fjörlega hugmyndavinnu starfsmanna var tekin ákvörðun um framhaldið: „Janoir“ verður haldinn hátíðlegur í janúar 2025.
Glæpasögur og höfundar þeirra verða í sviðsljósinu og í brennidepli þeir höfundar sem tilnefndir eru til Blóðdropans, íslensku glæpasagnaverðlaunanna: Óskar Guðmundsson, Stefán Máni, Eva Björg Ægisdóttir, Ragnheiður Gestsdóttir og Steindór Ívarsson. Þau hafa nánast öll staðfest komu sína á stórviðburð safnsins á Selfossi þann 16. janúar kl. 16:00. Janoir er unninn í samstarfi við Hið íslenska glæpafélag.
Í samstarfi við Svakalegu sögusmiðjuna verða ritsmiðjur fyrir börn í boði. Út mánuðinn fá gestir safnsins að velja sinn uppáhalds glæpasagnahöfund í gegnum könnun á Facebook og í kjörkössum á Bókasöfnum Árborgar, úrslit verða kynnt í lok mánaðar við glæpsamlega athöfn.
Bókasafn Árborgar Eyrarbakka fær í heimsókn Guðmund Brynjólfsson rithöfund þann 21. janúar kl. 16:30 og segir hann frá glæpatrílógíu sinni sem gerist bæði á Eyrarbakka og Stokkseyri.
Listakonan Hada Kisu opnar sýningu á myndverkum sínum í Listagjá Bókasafnsins á Selfossi þann 9. janúar kl. 15:00 og verður sama dag kl. 16:00 með vinnusmiðju í myndasögugerð.
Með erlenda gesti safnsins í huga, sem eru fjölmargir, verður lögð áhersla á að kynna íslenska glæpasagnahöfunda sem þýddir hafa verið á erlend tungumál, í samvinnu við fjölmenningarteymi Árborgar.
Hér á ferð er skemmtilegt samfélagsverkefni sem kryddar tilveruna í svartasta skammdeginu, hvetur til lestrar og örvar hugmyndaflug og sköpunarkraft. „Janoir“ er glænýtt verkefni og hugmynd sem hvergi í heiminum hefur verið útfærð áður, svo vitað sé.
Viðbrögð samstarfsaðila hafa verið jákvæð og einhver nú þegar farin að „stela“ hugmyndinni, sem er í góðu lagi, svo lengi sem henni verður ekki slátrað.