Borðtennis á blússandi siglingu á Stokkseyri
Þjálfarinn Ruben Illera López hjá Ungmennafélaginu á Stokkseyri hefur kveikt áhuga fjölmargra barna á borðtennis sem æfa nú af kappi og stefna á að keppa á mótum vetrarins.
Á meðfylgjandi mynd má sjá duglega krakka sem fengu í vikunni nýja boli frá félaginu til þess að taka þátt í HSK móti í borðtennis um nýliðna helgi.
Ruben Illera López borðtennisþjálfari er að hefja sinn annan vetur hjá Ungmennafélaginu Stokkseyri og hefur honum tekist að byggja upp öflugan hóp af efnilegum borðtennisspilurum en æfingar í borðtennis eru tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum frá kl. 14:15 - 15:15.
Það er ómetanlegt fyrir börn að geta iðkað íþróttastarf í sinni heimabyggð og við fögnum hvetjandi þjálfurum sem kveikja áhuga barna á íþrótta- og tómstundastarfi.
Ungmennafélagið Stokkseyri er einnig með handboltaæfingar á mánudögum frá kl. 16:05 -16:55, körfuboltaæfingar á föstudögum frá kl. 15:30 - 16:20 og krílatíma á laugardögum frá kl. 10 - 12 þar sem yngstu börnin fá útrás.