Bylting í aðgengismálum fyrirhuguð með samningi Árborgar og TravAble
Aðgengismál snerta alla og eru brýnt viðfangsefni. Fyrstu skrefin í samstarfi við TravAble eru úttektir á öllum stofnunum sem reknar eru af sveitarfélaginu
Lifandi samfélag í alfararleið! Við tökum vel á móti þér
Ofangreind slagorð Árborgar eru ekki orðin tóm og í anda þeirra hefur sveitarfélagið, í samvinnu við TravAble, lagt af stað í vegferð um úrbætur á aðgengismálum í sveitarfélaginu. Samningurinn við Travable felur í sér úttekt á stöðu aðgengismála hjá stofnunum sveitarfélagsins og hjá fyrirtækjum í verslun og þjónustu.

Aðgengismál snerta alla og eru brýnt viðfangsefni
Fyrstu skrefin í samstarfi við Travable eru úttektir á öllum stofnunum sem reknar eru af sveitarfélaginu. Í framhaldinu fá sumarstarfsmenn Árborgar kennslu í úttektum sem mun nýtast við frekari úttektir annarsstaðar í Árborg, t.d. í þjónustu- og verslunarkjörnum. Að úttektum loknum ætti sveitarfélagið að hafa fengið góða yfirsýn á úrlausnarefnin. Á þeim grunni verður ráðist í markvissar úrbætur í samráði við forstöðumenn stofnana Árborgar, hagsmunaaðila og aðra sem koma þurfa að málum.
Atli Marel Vokes
sviðsstjóri mannvirkja og umhverfissviðs Árborgar, Gísli Halldór bæjarstjóri og
Ósk Sigurðardóttir, eigandi og stofnandi TravAble undirrita samstarfssamning í
ráðhúsi Árborgar.Miðlun aðgengisupplýsinga mikilvæg
Í framhaldi af ofangreindum samningi verður unnin skýrsla um stöðu mála og allar byggingarnar skráðar í TravAble appið, smáforrit sem gerir upplýsingarnar enn aðgengilegri. Þannig verður hægt að fá upplýsingar um aðgengi í öllum opinberum byggingum Sveitarfélagsins Árborgar í Travable smáforritinu.
Atli Marel Vokes sviðsstjóri mannvirkja og umhverfissviðs Árborgar segir metnað sveitarfélagsins standa til aðgengis fyrir alla og sé þetta liður í því starfi. Aðgengi að gögnum um aðgengi er mikilvægur þáttur í þessu verkefni og ætti að leiða til ábendinga um úrbætur og hraðari framþróunar.
TravAble er íslenskt fyrirtæki sem vinnur að úrbótum á aðgengismálum. Fyrirtækið heldur úti smáforriti, appi, fyrir snjallsíma þar sem leita má upplýsinga um aðgengi á ýmsum stöðum, t.d. veitingastöðum í nágrenninu. Appið má nálgast má á vefnum og er það notað í yfir 40 löndum víðsvegar um heim. TravAble appið safnar saman gögnum um stöðu aðgengismála sem síðan birtist í appinu.
TravAble er samfélagslegt frumkvöðlafyrirtæki sem hefur frá upphafi haft það að markmiði að veita fólki með skerta hreyfigetu upplýsingar um staði og þjónustur sem henta þeirra hreyfihömlun. Fyrirtækið hefur byggt upp appið þannig að aðgengisupplýsingar komist til þessa hóps notenda, vina þeirra, fjölskyldna og annarra samferðarmanna.
“Nú þegar eru heilmiklar upplýsingar um allt land komnar inn og mjög jákvætt að Árborg bætist í hóp annara sveitarfélaga eins og Reykjavíkur og Garðabæjar að skrá aðgengisupplýsingar með formlegum og aðgengilegum hætti” segir Ósk Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri TravAble.
TravAble byggir á opnum gagnasöfnum um staði og þjónustur og treystir svo á fjöldann til að skrá upplýsingar um aðgengi. Því getur fólk með hreyfihamlanir og aðstandendur þeirra skráð inn staði í sínu nærumhverfi og jafnvel á ferðalögum erlendis og þannig bætt upplýsingar fyrir notendur út um allan heim.
Í sumar verða skráðar í Árborg allar opinberar byggingar, skólar, íþróttahús og sundlaugar, heilsugæsla, ráðhús, bókasöfn og söfn.
Eldri borgarar nýti sér þjónustu TravAble
Sú skemmtilega þróun hefur átt sér stað á undanförnum misserum að eldri borgarar hafa byrjað að nýta sér þjónustu TravAble. Hægt er að skrá mismunandi aðgengsisþarfir í appið og þetta hafa eldri borgarar nýtt sér vel. Með sífellt stærra hlutfalli eldra fólks í samfélaginu og auknu tæknilæsi er þetta auðvitað gríðarlega jákvæðar fréttir og hefur TravAble nú þegar átt gott samtal við Landssamband eldri borgara.
Um TravAble
Hindranir í vegi hreyfihamlaðara eru vandamál og handhægar upplýsingar um aðgengilega þjónustu, afþreyingu og mannvirki skortir. TravAble svarar þeirri brýnu þörf með því að tengja saman upplýsingar um þjónustu, afþreyingu og mannvirki og birta með smáforriti. TravAble er þjónustu- og leiðsöguapp, tengt korti, og hentar því hreyfihömluðum jafnt heima og að heiman. Áhersla er lögð á jákvæða nálgun, þ.e. að sýna einungis það sem er aðgengilegt hreyfihömluðum EKKI það sem er óaðgengilegt. Hreyfihamlaðir ferðast og vilja njóta lífsins eins og aðrir og þeirri þörf þarf að mæta. Talið er að hreyfihamlaðir, vinir og aðstandendur þeirra sem TravAble gæti gagnast séu allt að sex milljónir á Norðurlöndunum einum.
