Dagur læsis 8. september | Læsisstefna Árborgar kynnt til leiks
Dagur læsis er í dag, mánudaginn 8. september og því tilvalið að kynna nýja læsisstefnu sveitarfélagsins Árborgar sem ber heitið Læsi til lífs og leiks. Læsisstefnan er afrakstur þverfaglegrar vinnu fulltrúa leik- og grunnskóla, frístundastofnana og skólaþjónustu auk foreldra.
Með stefnunni er lögð áhersla á að öll börn og unglingar í skóla- og frístundastarfi Árborgar geti nýtt sér læsi til lífs og leiks og er markmiðið að börn, unglingar, foreldrar, kennarar og aðrir sem koma að uppeldi með einhverjum hætti geti nýtt sér stefnuna.
Læsisstefnan skiptist í tvo meginkafla, annars vegar málþroska, lestur og ritun og hins vegar læsi í víðum skilningi. Læsi er samstarfsverkefni heimila, skóla og frístundastarfs og er mikil áhersla lögð á farsælt samstarf með hagsmuni barna og unglinga að leiðarljósi.
Til að styðja við notkun og innleiðingu stefnunnar var sótt um styrk til skólaþróunar og nýsköpunar hjá Mennta- og barnamálaráðuneytinu til að útbúa rafræna verkfærakistu. Það er mjög ánægjulegt að geta kynnt þetta glæsilega verkfæri samhliða stefnunni sem án efa á eftir að nýtast bæði starfsfólki leik- og grunnskóla, frístundaþjónustu og foreldrum.
Við hvetjum öll þau sem koma að uppeldi barna til að kynna sér læsisstefnuna og verkfærakistuna sem nálgast má á heimasíðu Árborgar. Hér eru komin frábær verkfæri fyrir bæði heimili og skóla til þess að efla læsi barna í Árborg!