Færanlegum kennslustofum bætt við Barnaskólann á Eyrarbakka til þess að bæta aðstöðu unglingastigs
Færanlegar kennslustofur sem nýttar hafa verið undanfarin ár í Stekkjarskóla munu nú koma að góðum notum hjá BES á Eyrarbakka.
Verkið gengur vel og munu stofurnar verða teknar í gagnið í byrjun janúar 2026.
Stofurnar voru færðar í gær frá Stekkjaskóla á Selfossi yfir á Eyrarbakka og var mikill spenningur meðal nemenda og starfsfólks. Stofurnar verða tengdar við núverandi skólahúsnæði BES og aðstæðan þar með bætt til þess að húsnæðið styðji við þá kennsluhætti sem verið er að fylgja í dag.
Færanlegu kennslustofurnar tvær munu nýtast undir kennslu við BES á Eyrarbakka að Háeyrarvöllum 56, en þessa dagana standa yfir flutningar á þeim og er það Krana- og flutningaþjónusta JÁVERK ehf sem sér um þann hluta verksins. Einnig komu Laski ehf, Lagnaþjónustan ehf og Árvirkinn ehf að undirbúningi flutnings með vinnu við aftengingu húsa og lagna og Gröfuþjónusta Steins ehf vann alla jarðvinnu vegna flutnings þessara tveggja kennslustofa frá Stekkjaskóla. Eðalbyggingar ehf munu síðan ásamt undirverktökum sínum, byggja viðbyggingu tengigangs við kennsluhúsnæði BES á Eyrarbakka og sjá um allan frágang og tengingar kennslustofanna við núverandi skóla á Eyrarabakka.
Síðasta sumar samþykkti Bæjarráð Árborgar viðauka í fjárhagsáætlun 2025 fyrir flutninginn á stofunum og kostnað við fráganga og tengingar kennslustofanna við núverandi skóla á Eyrarbakka, viðaukinn var upp á 60 milljónir króna.
Ljósmyndir: Júlíana Tyrfingsdóttir og Svanbjörg Vilbergsdóttir
Myndir frá flutningnum: Júlíana Tyrfingsdóttir



Myndir af stofunum á nýjum stað á Eyrarbakka: Svanbjörg Vilbergsdóttir



