Farsæl börn í leikskóla | Lokaskýrsla
Á síðasta skólaári tóku leikskólarnir í Árborg, fjölskyldusvið Árborgar og Menntavísindasviði Háskóla Íslands þátt í þróunarverkefni sem styrkt var að Sprotasjóði.
Markmið verkefnisins var þríþætt og tengdist innleiðingu ákvæða laga um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021 með áherslu á grunnþjónustu leikskóla í stigskiptri farsældarþjónustu.
- Vinna að því að byggja upp farsælt samstarf milli foreldra og starfsfólks í leikskólum í takt við stigskipta farsældarþjónustu.
- Þróa leiðir til að efla félags- og tilfinningahæfni barna í leik og daglegu starfi og hlúa að vináttu þeirra og samskiptum.
- Þróa margvíslegar aðferðir og leiðir til að nálgast sjónarmið barna sem lið í innra mati leikskólans og virkja áhrifamátt þeirra í daglegu starfi og leik.
Stjórnendur telja að veturinn hafi mótað fyrstu skref í þeirri vegferð þeirra að hlúa að félags- og tilfinningahæfni barna og auka þátttöku þeirra í leikskólastarfi. Telja þeir starfsfólk vera betur í stakk búin að takast á við þetta hlutverk sitt í að styðja börn í leik og samveru og veita þeim fjölmörg tækifæri í daglegu starfi til að taka þátt.
Mörg dæmi um slíkt voru kynnt á sameiginlegum fundum leikskólanna. Þá vinna margir leikskólanna að því að endurskoða foreldrasamstarf og auka fræðslu til foreldra um uppeldi og nám barna og líta á sig sem samstarfsaðila í því mikilvæga verkefni.
Eins og fyrr segir líta stjórnendur leikskólanna á þennan vetur sem upphafið að því að vinna með markvissari hætti að þeim markmiðum sem sett voru fram í verkefninu.