Fimleika- og lyftingaiðkendum fagnað
Sveitarfélagið Árborg hélt á dögunum móttöku fyrir fimleika- og lyftingaiðkendur sem kepptu erlendis með góðum árangri fyrr á árinu.
Fimleikaiðkendur Umf. Selfoss stóðu sig vel á Evrópumótinu í hópfimleikum sem fór fram í Azerbaijan í október sl.
Fimleikadeild Umf. Selfoss átti þar átta iðkendur sem kepptu með stúlknaliðinu, blönduðu liði unglinga, blönduðu liði fullorðinna og kvennaliði Íslands. Einnig átti deildin þrjá þjálfara á mótinu með stúlkna- og drengjalðinu.
Árangur íslensku liðanna var góður og urðu bæði kvennaliðið og blandað lið unglina Evrópumeistarar í sínum flokkum. Þar átti fimleikadeildin fulltrúa í báðum liðum. Auk þess vann stúlknaliðið til bronsverðlauna þar sem fulltrúar Selfoss voru fjórir af tólf í liðinu.
Fimleikaiðkendur og þjálfarar með Braga Bjarnasyni, bæjarstjóra, Sveini Ægi Birgissyni, formanni bæjarráðs og Örnu Ír Gunnarsdóttur, bæjarfulltrúa.
Iðkendur og þjálfarar frá Fimleikadeild Umf. Selfoss:
- Birta Sif Sævarsdóttir - blandað lið fullorðinna
- Elsa Karen Sigmundsdóttir –- stúlknalið sem vann brons
- Karolína Helga Jóhannesdóttir - kvennalið sem varð Evrópumeistari
- Katrín Drífa Magnúsdóttir, blandað lið unglinga sem varð Evrópumeistari
- Kristín María Kristjánsdóttir - stúlknalið sem vann brons
- Magdalena Ósk Einarsdóttir - stúlknalið sem vann brons
- Silvia Rós Nokkala Valdimarsdóttir - blandað lið fullorðinna
- Victoria Ann Vokes - stúlknalið sem vann brons
Þjálfarar:
- Aníta Þorgerður Tryggvadóttir, drengjalið
- Mads Pind, stúlknalið
- Tanja Birgisdóttir, stúlknalið
Fjölbreytt flóra íþróttafólks í samfélaginu okkar
Bergrós Björnsdóttir, lyftinga- og crossfitkona skráði sig í sögu lyftinga á Íslandi fyrr á árinu þegar hún vann silfur í -71 kg flokki kvenna á Heimsmeistaramóti 17 ára og yngri sem fram fór í Lima, Perú. Hún lyfti 198 kg samanlagt í Jafnhendingu (clean & jerk) og Snörun. Árangurinn er sögulegur þar sem þetta eru fyrstu verðlaun Íslendings á Heimsmeistaramóti í Ólympískum lyftingum yfir alla aldursflokka.
Bergrós Björnsdóttir með Braga Bjarnasyni, bæjarstjóra, Sveini Ægi Birgissyni, formanni bæjarráðs og Örnu Ír Gunnarsdóttur, bæjarfulltrúa
Bergrós keppti einnig erlendis í Crossfit á árinu og vann sér m.a. rétt til að keppa á Heimsleikunum í CrossFit unglinga 3ja árið í röð ásamt því að keppa á fleiri mótum.
Við sem samfélag erum stolt af íþróttafólkinu okkar og af þessu tilefni fengu þessir iðkendur og þjálfarar smá þakklætisvott frá Sveitarfélaginu Árborg.
Móttakan var haldin í Bókasafni Árborgar á Selfossi og afhentu Bragi Bjarnason, bæjarstjóri og Sveinn Ægir Birgisson, formaður bæjarráðs viðurkenningarnar.