Fjárhagsáætlun Svf. Árborgar 2025 samþykkt | jákvæður rekstur og útsvar lækkar
Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2025, ásamt þriggja ára áætlun, var samþykkt að lokinni seinni umræðu í bæjarstjórn í dag, miðvikudaginn 4. desember. Útsvarsprósentan lækkuð í 14,97% og álagið afnumið.
Óverulegar breytingar urðu á áætluninni milli umræðna. Fjárhagsáætlanir einstaka málaflokka ýmist hækkuðu eða lækkuðu en stærsta breytingin var tengd leikskólanum Árbæ þar sem gert er ráð fyrir fjölgun barna haustið 2025. Einnig lækkuðu fjárfestingar í þriggja ára áætlun.
Heildartekjur haldast óbreyttar og rekstrarniðurstaða samstæðunnar er jákvæð um 86 milljónir árið 2025 samkvæmt áætluninni.
“Það er ánægjulegt að fjárhagsáætlun sé samþykkt með jákvæðri rekstrarniðurstöðu og sveitarfélagið sé að ná báðum lögbundnum viðmiðum eftirlitsnefndar strax árið 2025. Reksturinn verður traustari en það er mikilvægt að halda stefnu og leita áfram allra leiða til hagræðingar í rekstrinum sem um leið skapar svigrúm til lækkunar álaga á íbúa. Vil koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem hafa komið að vinnu við áætlunina. Við gleðjumst yfir betri stöðu en höldum fókus á verkefnin framundan” segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar.
Lykilpunktar
- Álagið tekið af, útsvarsprósentan verður 14,97%, lækkar um 1,474%
- Jákvæð rekstrarniðurstaða 86 milljónir í A- og B-hluta án álags á útsvar
- Veltufé frá rekstri er 2,1 milljarður
- Fasteignaskattur hækkar en vatns- og fráveitugjald lækkar að hluta á móti
- Gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs lækka fyrir tvískipta spartunnu
- Skuldaviðmið Árborgar lækkar og verður 126,6% árið 2025
- Hóflegar gjaldskrárhækkanir í takti við kjarasamninga
- Stöðugildum heldur áfram að fækka milli ára
- Þóknanir bæjarfulltrúa haldast áfram óbreyttar milli ára
- Verkefni menningarnefndar færð undir bæjarráð
- Verjum þjónustu við börn og ungmenni. Vinnuskóli fyrir 8. bekk og 17+ hefst aftur sumarið 2025
- Unnið að forvörnum í samstarfi við Öruggara Suðurland
- Dagdvölin Árblik opin yfir sumartímann
- Viðbygging við leikskólann Jötunheima, kennslusundlaug og hönnun 3. áfanga Stekkjaskóla
- Endurnýjun Eyrargötu á Eyrarbakka, hreinsistöðin og rannsóknarboranir Selfossveitna
Í samþykktri fjárhagsáætlun 2025 er gert ráð fyrir að rekstrarniðurstaða samstæðunnar, A- og B hluta, verði jákvæð sem nemur 86 milljónum og að EBITDA verði jákvæð um 2.834 milljónir. Veltufé frá rekstri er áætlað 2.073 milljónir í samstæðu sveitarfélagsins, framlegðarhlutfallið verði 13,8 og skuldaviðmiðið komið í 126,6%.
Rekstrarniðurstaða Árborgar fyrir A- og B-hluta
Skuldaviðmið og –hlutfall Sveitarfélagsins Árborgar
Nánari útskýring á fasteignagjöldum, útsvari og gjaldskrárhækkunum
- Útsvar fyrir árið 2025 verður lækkað úr 16,444% í 14,97% og álagið því tekið af vegna tekna sem aflað er á árinu 2025.
- Almennar gjaldskrárhækkanir verða 3,5% sem er í samræmi við forsendur fjárhagsáætlunar.
- Fasteignagjöld skiptast í fasteignaskatt, lóðarleigu, fráveitu- og vatnsgjalda og sorphirðugjalda.
- Fasteignaskatturinn hækkar á milli ára og verður 0,48% af fasteignamati íbúðarhúsnæðis og áfram 1,65% af atvinnuhúsnæði. Lóðarleiga mun haldast óbreytt milli ára.
- Fráveitu- og vatnsgjaldið lækkar í 0,102% af fasteignamati fyrir eignir í A-flokki (íbúðarhús) sem kemur að hluta á móti hækkun fasteignaskatts og helst óbreytt á aðra flokka.
- Gjöld fyrir meðhöndlun úrgangs lækka hjá þeim sem eru með tvískipta tunnu og hækka lítillega eða standa í stað í öðrum flokkum. Góð flokkun íbúa skilar sveitarfélaginu auknum tekjum úr úrvinnslusjóði sem um leið hefur jákvæð áhrif á gjöldin.
- Áhrif á íbúa vegna breytinga á fasteignagjöldum og hækkun fasteignamats er á bilinu 5-14%. Mismunurinn skýrist af því að fasteignamat er að hækka misjafnlega milli íbúakjarna/hverfa í sveitarfélaginu
Fjárhagsáætlun 2025 - 2028 | Kynning
Fréttatilkynning um fjárhagsáætlun 2025 - 2028 | Fyrri umræða