Fjölgun leikskóladeilda í Árborg
Í Árborg eru fimm leikskólar, á Selfossi eru fjórir og einn á Eyrarbakka og Stokkseyri með starfsstöð í báðum byggðakjörnum. Innritun í leikskólana fór fram í apríl og maí og var þá nánast öllum plássum úthlutað.
Aðlögun í leikskólana hefur gengið vel og skólastarfið farið vel af stað alls staðar. Í vor var tekin ákvörðun um að opna tvær deildir við leikskólann Álfheima og vinna við það hófst þá og húsunum komið fyrir.
Nú eru rétt rúmlega 500 nemendur í leikskólum Árborgar og búið að bjóða 26 börnum pláss á nýjum deildum sem opnaðar verða við Álfheima. Vinna við deildirnar í Álfheimum gengur vel og þar verður vonandi hægt að opna í október. Einnig er fyrirhugað að setja upp eina deild við heilsuleikskólann Árbæ. Þegar þetta er skrifað er búið að bjóða öllum börnum, sem eru með lögheimili í sveitarfélaginu, sem fædd eru í apríl 2018 pláss í leikskóla. Undirbúningsvinna við byggingu nýs leikskóla sem á að rísa við Engjaland á Selfossi gengur vel.
