Fjölskyldusvið Árborgar hlaut Menntaverðlaun Suðurlands
Fjölskyldusvið sveitarfélagsins Árborgar fékk Menntaverðlaun Suðurlands 2024 fyrir verkefnið ,,Eflum tengsl heimilis og skóla“.
Sveitarfélagið Árborg hefur breyst mikið undanfarinn áratug og er orðið mjög fjölmenningarlegt sveitarfélag.
Í leik- og grunnskólum Árborgar eru margir nemendur með fjölmenningarlegan bakgrunn sem tala samtals um 40 tungumál.
Markmið þróunarverkefnisins „Eflum tengsl heimila og skóla“ sem stóð á árunum 2021 - 2024 var að bjóða leik- og grunnskólanemum með fjölmenningarlegan bakgrunn í Sveitarfélaginu Árborg og foreldrum þeirra á hagnýtt íslenskunámskeið.
Boðið var upp á fjölþætta fræðslu fyrir foreldra, en notast var við Völu eða Mentor, vefsíðu Árborgar og Fjölmenningarsíðu Árborgar til að styðja foreldra í hagnýtri notkun þeirra og upplýsingaöflun. Einnig var boðið upp á málörvun fyrir nemendur í formi leikja og samræðna í samstarfi við alla leik- og grunnskóla Árborgar.
Markmiðið var að samþætta íslenskukennslu með skemmtilegum verkefnum og með öðrum námsgreinum þar sem unnið var með orðaforða þar sem áhersla var lögð á talað mál, lifandi samræður milli kennara og nemenda þar sem þeir fengu tækifæri til að tjá sig og sínar skoðanir.
Nýbreytni og frumleiki verkefnisins felst í því að samtvinna íslenskukennslu, fræðslu um skólakerfi og hagnýta upplýsingagjöf til foreldra í einu námskeiði. Einnig sú nýjung að bjóða börnum þátttakenda að koma með og vera þátttakendur á námskeiðinu. Verkefnið leiddi til aukinnar þátttöku foreldra í námi barna sinna og því haft jákvæð áhrif á námsárangur og vellíðan barnanna.
Meira samstarf varð á milli heimilis og skóla og á milli leikskóla, grunnskóla Árborgar og Fjölbrautaskóla Suðurlands en allar þessar stofnanir komu að verkefninu. Að auki stuðlaði verkefnið að þróun tengslanets milli fjölskyldna með fjölbreyttan bakgrunn í sveitarfélaginu.