Flakkandi Zelsíuz heppnaðist vel í sumar
Starfsfólk Zelsíuz hitti mörg ungmenni í sumar, boðið var upp á kvölddagskrá og viðveru á bæjarhátíðum.
Vettvangsstarf félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuz gekk vel í sumar. Starfsfólkið fór reglulega um bæinn á kvöldin og um helgar þar sem þau hittu fjölda ungmenna á ferðinni. Ungmennin tóku vel á móti starfsfólki og voru ánægð að sjá þau á ferðinni.
Boðið var upp á fjölbreytta dagskrá á kvöldin og viðveru á bæjarhátíðum í sveitarfélaginu, meðal annars á Kótelettunni og Sumar á Selfossi. Á hátíðunum var gott samstarf við barnavernd þar sem starfsfólk var til staðar fyrir ungmennin með sérstakt athvarf á svæðinu.
Markmið verkefnisins var að mæta ungmennum þar sem þau eru stödd, styrkja verndandi þætti í nærumhverfi þeirra, efla tengsl við samfélagið, draga úr áhrifum áhættuþátta og styðja við félagslega stöðu þeirra.
Samstarf við samfélagslögregluna gekk mjög vel og stuðlaði að auknu öryggi og sýnileika verkefnisins, þar sem fulltrúar samfélagslögreglunnar voru með okkur á vöktum um helgar. Þá gerði veglegur styrkur frá Kvenfélagi Selfoss Zelsíus kleift að efla búnað og aðstöðu til að sinna starfinu.