Flokkun úrgangs gengur vel í Árborg
Á fundi umhverfisnefndar Árborgar var lögð fram skýrsla um söfnun úrgangs á árinu 2024. Fram kom að flokkun íbúa jókst milli ára og greiðslur frá úrvinnslusjóði hefðu aukist um tæpar 20 milljónir milli ára.
Í skýrslunni kom fram að þjónustuaðili sveitarfélagsins hafi sótt um 2.220 tonn af úrgangi frá heimilum í Árborg árið 2024.
Úrgangurinn skiptist eftirfarandi:
- Grátunna (almennt sorp) um 1.245 tonn
- Brúntunna (lífrænt) um 518 tonn
- Plasttunna um 124 tonn
- Pappatunna um 327 tonn
- Blátunna (blandað pappi og plast) um 6 tonn
Endurvinnsluhlutfallið var því um 57% sem er 12% betri árangur miðað við síðasta ár sem er jákvæð þróun. Allt almennt sorp frá Árborg er flutt til orkunýtingar í Evrópu og dugði fyrir um 280 heimili í Danmörku.
Grenndarstöðvar að nýtast vel
Það söfnuðust um 62 tonn í grenndargáma Árborgar sem er um 48% aukning milli ára og greinilegt að íbúar nýta þær vel til að skila inn textíl, gleri og málmum til endurvinnslu. Á gámasvæðinu komu inn um 2.361 tonn sem er svipað og á árið 2023.
Auknar greiðslur frá Úrvinnslusjóði
Þessi árangur íbúa við flokkun er að skila árangri og hann sést best á greiðslum frá Úrvinnslusjóði. Á milli ára hafa þær aukist um tæplega 20 milljónir. Árið 2023 fékk sveitarfélagið greitt um 37,5 milljónir en árið 2024 um 56,5 milljónir. Árangur sem skilar sér í lægri gjöldum fyrir meðhöndlun úrgangs líkt og kom fram í kynningu fjárhagsáætlunar 2025 þar sem m.a. gjöld fyrir tvískipta spartunnu lækkuðu og flest önnur stóðu í stað milli ára.
Í bókun nefndarinnar er íbúum þakkað sérstaklega fyrir að standa sig vel að flokka úrgang. Vonandi höldum við áfram á þessari braut til að geta haldið gjöldum fyrir meðhöndlun úrgangs i lágmarki.