Forvarnardagur í Árborg 2025
Forvarnardagur Árborgar var haldinn miðvikudaginn 8. október sl. og tókst afar vel. Deginum er ætlað að efla forvarnarstarf meðal ungmenna og skapa tækifæri til fræðslu, umræðna og jákvæðra tengsla.
Forvarnardagurinn er hluti af landsverkefni sem haldið var víða um land 1. október sl. að frumkvæði forseta Íslands, í samvinnu við Embætti landlæknis, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands og Bandalag íslenskra skáta.
Að venju stóð forvarnarhópur Árborgar fyrir glæsilegri dagskrá í samstarfi við Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri (BES), Sunnulækjarskóla, Vallaskóla, Ungmennafélag Selfoss og félagsmiðstöðina Zelsíuz. Þar sem öllum nemendum í 9. bekk grunnskólanna í Árborg var boðið upp á sameiginlega dagskrá.
Dagskráin hófst með setningu í Selfosshöllinni þar sem Ellý Tómasdóttir, forvarnarfulltrúi Árborgar, ávarpaði ungmennin. Dagný Brynjarsdóttir, íþróttakona, hvatti ungmennin til að hafa trú á sjálfum sér, lifa heilbrigðu lífi og elta draumana sína.
Eftir setningu var nemendum skipt í hópa sem fóru á milli átta fræðslustöðva. Þar var boðið upp á fjölbreyttar kynningar og fræðslur sem höfðu mikið og gott forvarnargildi.
Nemendur áttu opið samtal við lögregluna um virðingu, fengu fræðslu frá sjúkraflutningamanni um áverka og afleiðingar líkamlegs ofbeldis og kynntu sér kynheilbrigði með skólahjúkrunarfræðingum. Félagsmiðstöðin Zelsíuz stóð fyrir verkefnavinnu um samskipti og jafningjafræðslan var með hópefli og fræðsluleiki. Einnig kynntu Björgunarfélag Árborgar, Leikfélag Selfoss og Júdódeild Umf. Selfoss sitt starf.
Að lokinni dagskrá var öllum boðið í pylsupartý við Tíbrá, þar sem góð stemning og gleði ríkti meðal þátttakenda. Tilgangur dagsins var að efla samstöðu ungmenna, styrkja þau í að taka upplýstar ákvarðanir og hvetja til heilbrigðs lífsstíls.
Opið samtal með foreldrum og forsjáraðilum
Seinnipart dagsins var haldinn opinn fræðslufundur fyrir forsjáraðila nemenda í 9. bekk. Markmið fundarins var að skapa uppbyggilegar samræður um hvernig við getum í sameiningu stutt við vellíðan og öryggi barna í Árborg.
Á fundinum héldu fulltrúar sveitarfélagsins og samstarfsaðilar stutt erindi. Ellý Tómasdóttir, verkefnastjóri frístundaþjónustu og forvarnarfulltrúi, sagði frá deginum sjálfum, og Arndís Tómasdóttir, sérfræðingur fjölskyldusviðs, fór yfir stöðuna í Árborg þegar kemur að vímuefnaneyslu og áhorfendaáhrifum ungmenna. Einnig sögðu þeir Ellert Geir Ingvason, samfélagslögreglumaður og Grímur Sævar Kristjánsson, sjúkraflutningamaður, frá þeirri fræðslu sem ungmennin fengu fyrr um daginn.
Í lokin sköpuðust góðar og uppbyggilegar umræður þar sem þátttakendur deildu hugmyndum sínum og ræddu mikilvægi samvinnu, bæði milli foreldra, heimilis og skóla til að styrkja forvarnarstarf og stuðning við börn og ungmenni í sveitarfélaginu.
Forvarnarhópur Árborgar þakkar öllum sem komu að deginum fyrir frábært samstarf og þátttöku.