Framfaravog sveitarfélaga - niðurstöður 2021
Nýjustu niðurstöður úr verkefninu "Framfaravog sveitarfélaga" sem Sveitarfélagið Árborg er hluti af voru kynntar 31.ágúst sl.
Framfaravog sveitarfélag er verkefni sem Sveitarfélagið Árborg, Kópavogsbær og Reykjanesbær hafa verið hluti af sl. ár en því er ætlað að vera leiðarljós til að byggja upp betra samfélag. Framfaravogin er stjórntæki sem byggir á skilgreindum umhverfis- og félagslegum vísum sem allir koma úr sama brunni og endurspegla stöðuna í því samfélagi sem skoðar er.
Niðurstöður 2021 má sjá hér að neðan en einnig er hægt að sjá ítarlegri niðurstöður fyrir Sveitarfélagið Árborg hér: Niðurstöður fyrir Sveitarfélagið Árborg
Þróunin góð í Árborg en viljum gera betur
Niðurstöður framfaravogarinnar 2021 sýna að ákveðnir þættir innan sveitarfélagsins hafa hækkað milli ára sem er mjög jákvætt. Má þar nefna aðgengi að ljósleiðaratengingu, aukin störf fyrir háskólamenntaða, betri gæði svefns í samfélaginu, ánægja með starf leikskóla og nýting rafrænnar heilbrigðisþjónustu.
Fjölmargir þættir standa í stað milli ára en síðan eru nokkrir sem sýna okkur hvar hægt er að gera betur líkt og minnka gosdrykkjaneyslu unglinga, hreinsun frárennslis, ánægja með grunnskólastarfið, andleg heilsa fullorðinni og kvíði unglinga.
Sveitarfélagið Árborg hefur það að markmiði að vinna að framþróun í samfélaginu, bættrar þjónustu og betri líðan íbúa. Niðurstöður framfaravogarinnar hjálpa okkur að sjá hvar við erum að gera vel og hvar megi gera betur.
Þróunarteymi framfaravogarinnar í Sveitarfélaginu Árborg
Innan sveitarfélagsins hefur verið stofnað þróunarteymi framfaravogarinnar sem vinnur nú að því að greina niðurstöðurnar, skilgreina eftirsóknaverð markmið og koma með tillögur til bæjarstjórnar að verkefnum sem stuðla að því að bæta samfélagið. Þróunarteymir er skipað eftirfarandi einstaklingum:
- Bragi Bjarnason, deildastjóri frístunda- og menningardeildar
- Birgir Edwald, skólastjóri Sunnulækjarskóla
- Anna Gína Aagestad, aðstoðarleikskólastjóri Goðheima
- Guðrún Svala Gísladóttir, teymisstjóri hjá félagsþjónustu
- Sigurður Ólafsson, verkefnastjóri hjá mannvirkja- og umhverfissviði
- Sveinn Pálsson, byggingafulltrúi
- Ásdís Elvarsdóttir, sérfræðingur á fjármálasviði