Fréttatilkynning | Ársreikningur 2024
Yfir þriggja milljarða viðsnúningur í rekstri Sveitarfélagsins Árborgar.
Rekstrarafkoma Sveitarfélagsins Árborgar árið 2024 er sú besta í fjölda ára
Aðgerðir til hagræðingar, sala eigna og auknar tekjur sem, m.a. skýrast af íbúafjölgun og álagi á útsvar, eru meginskýring jákvæðrar niðurstöðu ársreiknings sem lagður var fram í bæjarráði Árborgar í morgun.
Rekstrarniðurstaða A- og B-hluta er jákvæð um 3.243 millj.kr. en áætlanir gerðu ráð fyrir um 115 millj.kr neikvæðri niðurstöðu. Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð um 1.892 millj.kr. en áætlanir gerðu ráð fyrir um 1.000 millj.kr neikvæðri niðurstöðu. Um er að ræða eina bestu rekstrarniðurstöðu sveitarfélagsins frá upphafi sem kemur verulega á móti hallarekstri undanfarinna ára. Árangurinn rennir sterkari stoðum undir fjárhagsáætlun ársins og undirbúning áætlunar næstu ára. Einskiptis tekjur vegna álags á útsvar og sölu eigna hafa umtalsverð áhrif á jákvæða rekstrarniðurstöðu en áfram verður megin áskorunin að gera A-hluta sveitarfélagsins sjálfbæran á næstu árum.
Veltufé frá rekstri rúmlega tvöfaldast milli ára og er um 4.383 millj.kr. og handbært fé eykst um tæplega 2.000 millj.kr. milli ára og endar í 2.333 millj.kr. í A- og B-hluta.
“Niðurstaða ársreikningsins er mjög ánægjuleg og vil ég óska íbúum, starfsmönnum og kjörnum fulltrúum til hamingju með árangurinn. Það er ánægjulegt að aðgerðir bæjarstjórnar og starfsmanna undanfarin þrjú ár hafi skilað árangri á skemmri tíma en áætlað var. Lausafjárstaða sveitarfélagsins styrkist og skuldaviðmið lækkar verulega milli ára þrátt fyrir umfangsmiklar fjárfestingar og viðhald innviða.
Stefna bæjarstjórnar Árborgar var að taka á rekstrarvandanum með ábyrgum hætti og það er að takast. Við munum áfram sýna ábyrgð í rekstrinum með það að markmiði að skapa aðstæður til lækkunar annarra álaga, líkt og fasteignagjalda. Íbúar eiga alltaf að njóta ávinningsins á endanum m.a. í formi lægri gjalda og álaga.” sagði Bragi Bjarnason, bæjarstjóri af þessu tilefni.
Skuldaviðmið lækkar í 107,6%
Skuldir við lánastofnanir lækka milli ára en heildarskuldir og skuldbindingar aukast lítillega vegna gjalddaga á skammtímaláni sem verður endurfjármagnað á yfirstandandi ári. Skuldaviðmið lækkar í 107,6% úr 147,4% sem er frábær árangur og er Árborg komið vel undir lögbundið hámark sem er 150% samkvæmt sveitarstjórnarlögum.
Sala byggingarréttar fyrir land í Björkurstykki kemur inn í ársreikninginn og skilar um 700 millj.kr. umfram áætlanir þegar gert er ráð fyrir sölu eigna og byggingarréttar. Aðgerðir til hagræðingar skila sér í jákvæðri niðurstöðu flestra málaflokka og íbúafjölgun umfram áætlanir ásamt álaginu eykur útsvarstekjur.
Álag á útsvar nær aðeins til ársins 2024
Hluti af aðgerðaáætluninni “Brú til betri vegar” var að Árborg innheimti sérstakt álag á útsvarið fyrir árið 2024 til að tryggja lausafjárstöðu sveitarfélagsins og um leið grunnþjónustu. Sú aðgerð sem nær eingöngu til ársins 2024, skilar um 300 milljónum umfram áætlanir sem hefur verulega áhrif á að sveitarfélagið er komið í gegnum fjárhagserfiðleikana og styrkir stöðu þess til framtíðar.
“Nú er samkomulagi sveitarfélagsins við Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga að ljúka 1.maí nk. og það er ánægjulegt að geta lagt fram ársreikning með þessari niðurstöðu sem styður enn frekar við samþykkta fjárhagsáætlun og bættan rekstur sveitarfélagsins. Það má samt segja að nú reyni á að sýna áfram ábyrgð í rekstri, standast áætlanir og gera A-hluta sveitarfélagsins sjálfbæran á næstu árum þannig að við lendum aldrei aftur á sama stað og árið 2022.” sagði Bragi að auki.
Íbúafjöldi í Árborg var 12.064 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands 1.janúar 2025 og fjölgar um 499 íbúa. Fjöldi stöðugilda er um 785 og stendur nánast í stað milli ára.
Ársreikningurinn var lagður fram til staðfestingar í bæjarráði fös. 25. apríl og vísað til fyrri umræðu í bæjarstjórn mánudaginn 28. apríl nk.