Fundur tengiráðgjafa með félags- og húsnæðismálaráðherra
Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra fundaði með Bylgju Sigmarsdóttur tengiráðgjafa þróunarverkefnisins Gott að eldast hjá Sveitarfélaginu Árborg.
Rætt var um starf tengiráðgjafa og málefni eldra fólks
Á fundinum sköpuðust góðar samræður þar sem farið var yfir mikilvægi þess að aðstoða einstaklinga sem eru félagslega einangraðir og/eða einmana. Helstu verkefni tengiráðgjafa eru að vinna gegn einmanaleika og félagslegri einangrun og er í góðum tengslum við staðbundna aðila til að nýta sem best þær bjargir sem fyrir eru í samfélaginu.
Starf tengiráðgjafa er styrkt af Félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og kemur til vegna þróunarverkefni Gott að eldast sem gengur út á að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum.
Sveitarfélagið Árborg er eitt af 22 sveitarfélögum á 6 svæðum sem voru valin í að taka þátt en gerð hefur verið aðgerðaáætlun um þjónustu við eldra fólk 2023 - 2027 þar sem grunnhugsunin er sú að eldra fólk er ekki byrði á samfélaginu heldur hefur það ótvírætt virði.
Meginþungi aðgerða liggur í þróunarverkefnum sem ganga út á að finna góðar lausnir sem samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk. Sömuleiðis verður ráðist í aðgerðir sem snúa að heilbrigðri öldrun með alhliða heilsueflingu, sveigjanlegri þjónustu og stórbættan aðgang að ráðgjöf og upplýsingum um þjónustu fyrir eldra fólk.
Allar aðgerðir miða að því að tryggja virkara og heilsuhraustara eldra fólki þjónustu sem stuðlar að því að sem flest þeirra séu þátttakendur í samfélaginu- sem allra lengst.
Á myndinni eru: Guðleif Birna Leifsdóttir tengiráðgjafi hjá Mosfellsbæ, Inga Sæland Félags- og húsnæðismálaráðherra og Bylgja Sigmarsdóttir tengiráðgjafi hjá Sveitarfélaginu Árborg.