Fyrstu skóflustungur að nýjum leikskóla á Selfossi
Fimmtudaginn 19. desember 2019 voru fyrstu skóflustungur teknar að nýjum leikskóla við Engjaland á Selfossi. Tilboð í byggingu leikskólans voru opnuð sama dag.
Arna Ír Gunnarsdóttir, formaður fræðslunefndar, Guðný Ingibjörg Rúnarsdóttir, leikskólaráðgjafi, og Þorsteinn Hjartarson, sviðsstjóri fjölskyldusviðs tóku fyrstu skóflustungurnar.
Um verður að ræða sex deilda leikskóla og er byggingin 1.112 m², ásamt þremur smáhýsum sem samtals eru um 42 m². Leikskólalóðin er 7.050 m².
Eykt átti lægsta tilboðið
Fimm tilboð bárust í verkið og voru þau öll yfir kostnaðaráætlun, sem hljóðar upp á 695,7 milljónir króna. Eykt ehf átti lægsta tilboðið, 742,3 milljónir króna, sem er 6,7% yfir áætlun.HK verktakar ehf áttu frávikstilboð upp á 744,8 milljónir króna og annað tilboð upp á 787,7 milljónir króna. Íslenskir aðalverktakar buðu 775,6 milljónir króna og ÞG verk 799 milljónir króna. Áður hafði Aðalleið átt lægsta boðið í jarðvinnu við leikskólann. Hún er nú hafin og á að vera lokið þann 8. febrúar næstkomandi.
Ljósmynd: sunnlenska.is | Guðmundur Karl
