Glæpasagnamánuðurinn Janoir genginn í garð
Óhuggulegur viðburður með fremstu glæpasagnahöfundum landsins á Bókasafni Árborgar Selfossi fimmtudagskvöldið 22. janúar kl. 19:30.
Á Bókasafni Árborgar heitir janúar nú Janoir eins og frægt er orðið og er helgaður glæpasögum. Sú hugmynd að kalla janúarmánuð Janoir kviknaði fyrir tveimur árum síðan hjá bókaverði Bókasafns Árborgar og fyrsta hátíðin var haldin á síðasta ári við glæpsamlega góðar móttökur.
Með einbeittan brotavilja að leiðarljósi og aðstoð frá Bókasafnasjóði og Hinu íslenska glæpafélagi, blásum við aftur til leiks og bjóðum gestum á hryllilega skemmtilegt Glæpasagnakvöld þann 22. janúar næstkomandi.
Sérstakir gestir kvöldsins eru þeir glæpasagnahöfundar sem eru tilnefndir til Blóðdropans fyrir árið 2025. Þau sem mæta að kynna bækurnar sínar eru; Lilja Sigurðardóttir, Eva Björg Ægisdóttir, Anna Rún Frímannsdóttir og Margrét S. Höskuldsdóttir.
Glæpaforinginn Ævar Örn Jósepsson mætir og stýrir umræðum.
Það verður kosið um vinsælasta glæpahöfund ársins og úrslit verða birt í lok janúar.
Gæsahúðarstemning og glæpsamlegt að missa af þessu!
Verið öll ægilega velkomin,starfsfólk Bókasafns Árborgar
