Glæsilegt opnunarteiti á endurbættri vinnustofu félagsins
Það var sannkölluð hátíðarstund þegar Myndlistarfélag Árnessýslu bauð félagsmönnum til opnunarteitis á nýendurbættri vinnustofu félagsins. Mætingin var frábær, stemningin létt og gleðin ríkjandi og ljóst að breytingarnar hafa vakið mikla ánægju meðal félagsmanna.
Ný tækifæri og blómlegt félagsstarf
Vinnustofan er hjarta félagsins og nú þegar hafa hátt í 60 félagsmenn nýtt sér aðstöðuna eftir að hún var opnuð á ný, það er nær helmingur alls félagsins sem telur um 120 félagsmenn. Þetta sýnir svart á hvítu að þörfin fyrir góða vinnuaðstöðu er mikil.
Stjórn félagsins er afar stolt af framkvæmdunum sem gerðar hafa verið og vilja þakka öllum sem lögðu hönd á plóg. Starfið í vetur verður fjölbreytt. Á þriðjudögum verða opnar vinnustofur þar sem félagsmenn geta hist og skapað saman og á miðvikudögum verða vatnslitahittingar. Auk þess er félagið alltaf opið fyrir nýjum hugmyndum og til í að prófa eitthvað nýtt.
Opið fyrir almenning
Í október hefst nýtt fyrirkomulag: vinnustofan og Gallerí Gangur verða opin fyrir gesti og gangandi á ákveðnum opnunartímum. Þá gefst almenningi tækifæri til að koma inn, skoða sýningar, kynnast félagsstarfinu og ekki síst kaupa list eftir frábæra félagsmenn MFÁ. Þar má finna mikið af fjölbreyttum og fallegum verkum sem henta jafnt í heimilið sem í gjafir.
Framundan eru stórir viðburðir
Menningarmánuðurinn í október er framundan hjá Sveitarfélaginu Árborg og tekur Myndlistarfélagið virkan þátt nú sem áður og býður upp á marga og fjölbreytta viðburði. Jólamarkaðurinn í desember verður sömuleiðis fastur liður sem enginn vill missa af. 45 ára afmæli félagsins verður haldið hátíðlega á næsta ári með sýningum, viðburðum og fleiri uppákomum.
Félagsskapur og samstaða
Myndlistarfélag Árnessýslu er meira en bara félag, það er samfélag. Þar ríkir samvinna, gleði og skapandi kraftur sem gerir starfið lifandi og litríkara með hverju ári.