Gleði og samvera í BES 17. október – þemavinna, söngstund, pálínuboð og lok lestrarkeppni
Föstudaginn 17. október var haldinn einstakur viðburður í skólanum sem einkenndist af gleði, samveru og litadýrð. Dagskráin hófst klukkan 8:20 með notalegri og fjölmennri söngstund, þar sem bæði foreldrar og nemendur tóku þátt. Þessi hlýja stund skapaði góða stemningu og samkennd á meðal allra viðstaddra.
Að lokinni söngstund buðu nemendur yngra stigs foreldrum og kennurum í pálínuboð, þar sem boðið var upp á ljúffengar veitingar og samveru í salnum. Þar gafst gott tækifæri til að spjalla, hlæja og njóta saman.
Einnig var formlega slitið Svakalegu lestrarkeppninni, sem staðið hefur yfir frá 15. september til 15. október. Í henni sýndu nemendur yngsta- og miðstigs frábæran lestrarvilja og dugnað – markmiðið var að lesa 50 þúsund mínútur og náðu nemendur því og vel það! Mikill fögnuður braust út þegar heildartölurnar voru kynntar, og ljóst að keppnin hafði hvetjandi áhrif á nemendur til að lesa meira og njóta lesturs.

Nemendur 5. bekkjar lásu samanlagt flestar mínútur allra bekkja og unnu því farandbikarinn í keppninni. Þau vörðu þar með titilinn frá fyrra ári og fengu verðskuldað hrós fyrir samheldni, metnað og mikla lestrargleði.
Dagurinn var litadagur með tvöföldum tilgangi. Nemendur, kennarar og foreldrar mættu klædd í bleiku til að styðja við bleikan október, sem snýr að vitundarvakningu um krabbamein og mikilvægi forvarna. Jafnframt var dagurinn tileinkaður fjólubláum degi, sem vekur athygli á málþroskaröskun (DLD – Developmental Language Disorder) og mikilvægi þess að styðja börn með málörðugleika. Með þessum litum sýndi skólinn samhug og meðvitund um mikilvæg málefni sem snerta samfélagið.
Á unglingastigi BES var sömuleiðis uppskeruhátíð en nemendur unnu alla vikuna í þemavinnu um landnám Íslands. Hver nemandi bjó til persónu frá þessum tíma, settu sig í spor þeirra og unnu öll verkefnin út frá því að sú persóna væri að lifa af og hefja nýtt samfélag í nýju landi.

Hver hópur valdi sér hópstjóra sem kallaðist að sjálfsögðu Goði. Goðin fengu allar verkefnalýsingar og sáu um að deila niður verkefnum og að allir væru í vinnu. Sum staðar var það full vinna hjá goðunum að verkefnastýra.

Af og til var verkefnavinna brotin upp hjá nemendum með því að goðorðin (sem var nafn hópanna) kepptu sín á milli í Kubb. Fjöldinn allur af verkefnum lágu að baki eftir vikuna og lokaniðurstaðan var að hver hópur setti upp bás og aðstandendum var boðið í heimsókn að skoða afurðina.
Viðburðir dagsins tókust einstaklega vel og var sannkölluð hátíð í skólalífinu, þar sem áhersla var lögð á samveru, vináttu og jákvæða upplifun allra sem tóku þátt. Vel var mætt og við viljum þakka foreldrasamfélaginu kærlega fyrir þátttökuna og stuðninginn.