Grenið í Jórukletti er Tré ársins
Tré ársins 2025 verður formlega útnefnt við hátíðlega athöfn við gömlu kartöflugeymsluna á Selfossi á morgun, laugardag kl. 14:00. Það er Skógræktarfélag Íslands sem velur tré ársins ár hvert.
Tré ársins í ár er grenitré sem hefur tekið sér bólfestu í Jórukletti í miðri Ölfusá, þar sem það blasir við íbúum Selfoss og öðrum vegfarendum. Ekki er vitað hvernig tréð hefur tekið sér bólfestu á þessum merkilega stað en aldur trésins verður kannaður þegar það verður mælt á morgun.
Athöfnin fer fram á norðurbakka Ölfusár, neðan við Ártún og hefst athöfnin kl. 14:00. Jóruklettu er í eigu Sveitarfélagsins Árborgar og mun fulltrúi bæjarfélagsins taka á móti viðurkenningarskjali.
Öll eru velkomin á athöfnina en þar verða flutt ávörp og leikin tónlist ásamt því að tréð verður mælt með aðstoð Ágústs Inga Kjartanssonar og félaga í Björgunarfélagi Árborgar. Í dagskrárlok verða veitingar í boði Skógræktarfélag Íslands.