Gullin í grenndinni - tilnefning til Íslensku menntaverðlaunanna 2025
Gullin í grenndinni er útináms- og samstarfsverkefni tveggja skóla á Selfossi, leikskólans Álfheima og grunnskólans Vallaskóla. Meginmarkmið verkefnisins er að nemendur kynnist náttúrunni og læri og upplifi hana á fróðlegan og skemmtilegan hátt, auk þess að skapa tengsl á milli skólastiganna tveggja.
Fjölmargir aðilar lögðu hönd á plóg við mótun verkefnisins, sem hófst fyrir 13 árum síðan m.a. Umhverfisdeild Árborgar, Suðurlandsskógar og Skógræktarfélag Selfoss. Verkefnið hefur verið í stöðugri þróun og samstarfi og er löngu orðinn fastur liður í samstarfi skólanna.
Stærstur hluti verkefnisins fer fram í grenndarskógi skólanna, sem hefur fengið nafnið Vinaskógur. Nafnið var valið í samráði við börnin. Nemendur tveggja elstu árganga leikskólans Álfheima hitta nemendur í 1. og 2. bekk Vallaskóla. Aðrir árgangar á yngsta stigi fara reglulega í útinám í grenndarskóginum. Verkefnastjórar í báðum skólunum hafa yfirumsjón með verkefninu, skipulagningu, framkvæmd og námskeiðshaldi og hittast reglulega til að skipuleggja ferðirnar.
Allir þátttakendur fara einu sinni í mánuði í skóginn og á hver hópur sitt svæði. Nemendur Vallaskóla hitta nemendur Álfheima við leikskólann og saman leiðast þeir út í skóg. Þegar í skóginn er komið er nemendum skipt í litla blandaða hópa sem leysa fjölbreytt verkefni. Þau hafa tálgað, mælt tré, gert fóðurkúlur og rólur fyrir fugla, vasaljósaferð, týnt köngla og safnað fræjum og síðan ræktað úr fræjunum. Þá hefur eldri borgari komið í heimsókn og frætt þau um tilurð skógarins. Þá má nefna vorhátíðina en þá hittast allir þátttakendur og gera sér glaðan dag í skóginum. Nemendum er skipt í hópa og síðan er farið í gegnum mismunandi stöðvar; myndlistarstöð, tónlistarstöð, vísindastöð, útieldun, þrautabraut svo eitthvað sé nefnt. Einnig eru farnar jólaferðir í skóginn. Þá er hitað kakó yfir eldi og gengið í kringum jólatré. Leikskólabörnin koma í heimsókn í Vallaskóla þar sem nemendur sýna þeim skólann og þau vinna saman að verkefni sem tengist fuglunum í skóginum. Nemendur á miðstigi, 5.–7. bekkja, hafa heimsótt leikskólann Álfheima í þeim tilgangi að lesa fyrir nemendur til dæmis í tengslum við Dag íslenskrar tungu og í kringum jólin.
Helsti ávinningur verkefnisins er að nemendur hafa tengst vinaböndum þvert á skólastigin og milli árganga í skólanum. Þessi vinatengsl hafa myndast við leik og störf í náttúrlegu umhverfi þar sem nemendur hafa í sameiningu lært að þekkja, skilja og virða náttúruna og sitt nánasta umhverfi með því að upplifa og rannsaka.
Hliðstætt verkefni í nafni Gullanna í grenndinni hófst í Flóahreppi 2019 þegar leikskólinn Krakkaborg og Flóaskóli hófu samstarf með aðild sveitarfélagsins og í samstarfi við skógræktarfélög (sjá hér).
Hugmyndina að verkefninu eiga þau Anna Gína Aagestad sem var þá leikskólakennari í leikskólanum Álfheimum á Selfossi og Ólafur Oddsson, uppeldisráðgjafi og höfundur bókarinnar Lesið í skóginn – tálgað í tré. Anna Gína er nú starfandi leikskólastjóri leikskólans Goðheima á Selfossi og hefur haft frumkvæði að samstarfsverkefni leikskólans og Sunnulækjarskóla um útinám byggt á hugmyndafræði Gullanna í grenndinni. Ólafur sýndi verkefninu mikinn stuðning með fjölbreyttum námskeiðum fyrir kennara allt þar til hann lést árið 2023.
Gullin í grenndinni er gott dæmi um áhugavert þróunarverkefni sem verður að mikilvægum og föstum lið í skólastarfi og öðrum hvatning til að leita á svipuð mið.
Verkefnið hefur tvisvar sinnum fengið styrk úr Sprotasjóði í fyrra skiptið Leikskólinn Álfheimar og seinna skiptið Leikskólinn Krakkaborg.