Hátíðarkveðja bæjarstjóra - Viðburðarríkt ár senn að baki
Það er ekki ofsögum sagt að tíminn líður hratt. Árið 2025 hefur verið viðburðaríkt og nú eru jól og áramót að ganga í garð. Lífsreynsla ársins fer í reynslu- og minningarbankann þegar hugsað er til baka og áhugaverð atvik rifjuð upp. Þakklæti er mér ofarlega í huga, það er margt sem við getum glaðst yfir ásamt því að læra af reynslunni til þess að gera betur á næsta ári. Sveitarfélagið Árborg er samfélag sem ég er stoltur af að tilheyra og ég mun alltaf gera mitt besta fyrir Árborg okkar allra.
Stækkandi sveitarfélag fyrir alla
Árborg er samfélag í örum vexti, þekkt fyrir góða þjónustu, fjölbreytta búsetukosti og öflugt viðburðahald sem setur sinn svip á mannlífið. Í byrjun árs vorum við um 12.300 íbúar en nú í lok árs erum við rétt um 13.000. Býð ég nýbúa velkomna í okkar góða samfélag í Árborg.
Þegar heilt kjörtímabil er að líða undir lok er áhugavert að horfa til baka og meta árangur af verkefnum og ákvörðunum. Það er ótrúlegt að mínu mati hvar við stöndum í dag með þeim umbreytingum sem hafa orðið á rekstri sveitarfélagsins. Árangur sem endurspeglast í nýsamþykktri fjárhagsáætlun ársins 2026. Þar lækkum við álögur á íbúa og fyrirtæki, aukum framlag til mennta-, velferðar- og frístundamála og bætum í fjárfestingar og viðhald. Ábyrgur rekstur skilar sér í ávinningi til íbúa og um leið hvetur hann okkur áfram til að gera enn betur.
Verðugt ár er að baki þar sem 2. áfangi Stekkjaskóla var tekinn í notkun ásamt ákvörðun um að hefjast strax handa við íþróttamannvirki í 3. áfanga. Leikskóladeildum var bætt við Jötunheima, niðurgreiðsla hækkuð vegna þjónustu dagforeldra og nýtt fyrirkomulag skráningar í leikskóla hefur fest sig í sessi, sem gefur foreldrum aukinn sveigjanleika samhliða lægri gjöldum. Við opnuðum nýtt úrræði fyrir einstaklinga með fötlun og kynntum „Áttaviti æskunnar“ til sögunnar í upphafi skólaárs en Árborg er leiðandi sveitarfélag á Íslandi í málefnum farsældar barna. Áttaviti æskunnar tekur utan um þá sameiginlegu sýn og fjölbreyttu þjónustu sem börnum og fjölskyldum stendur til boða.
Sveitarfélagið Árborg á í góðu samstarfi við foreldrafélög og viðbragðsaðila þar sem mörg forvarnarverkefni hafa verið í gangi á árinu. Má þar nefna fjölda fyrirlestra, forvarnardaginn, flakkandi félagsmiðstöð og fleiri samstarfsverkefni. Markmiðið er sameiginlegt: að efla og fræða unga fólkið okkar sem og foreldra því það þarf heilt samfélag til að ala upp barn.
Uppbygging hreinsistöðvar á Selfossi heldur áfram og endurnýjun á dreifikerfi Selfossveitna og vatnsveitu er í fullum gangi. Klárað að tengja saman göngu- og hjólastíg milli byggðarkjarna, auka lýsingu við gönguþveranir, nýtt biðskýli fyrir strætó á Stokkseyri, nýr saunaklefi við Sundlaug Stokkseyrar, tvær nýjar kennslustofur við BES á Eyrarbakka ásamt viðhaldi gatna og bygginga, gróðursetningum og fjölda minni verkefna sem skila bættu umhverfi og ásýnd sveitarfélagsins. Þetta er aðeins brot af þeim verkefnum sem kjörnir fulltrúar og starfsmenn hafa komið að og vil ég þakka þeim öllum fyrir ómetanlegt framlag á árinu.
Öflugt atvinnulíf og menningin blómstrar
Við erum ríkt samfélag af menningu og félagsauð sem endurspeglast m.a. í öflugum kórum, hljómsveitum, byggðasafni, fjölbreyttum listamönnum, íþróttafélögum og viðburðahaldi. Íþróttamót, myndlistarsýning, tónleikar eða leiksýningar eru stór hluti af daglegu lífi íbúa Árborgar. Sveitarfélagið hefur komið að Vori í Árborg, menningarmánuðinum, Jólum í Árborg og næstum tvö hundruð fleiri menningarviðburðum á árinu 2025. Það er þó aðeins brot af heildinni sem telur í fleiri hundruðum viðburða fyrir okkur íbúa og gesti að njóta ásamt góðum stundum á bókasöfnum og öðrum söfnum.
Staða atvinnurekstrar á svæðinu er á réttri leið og fjölmörg áhugaverð framkvæmdaverkefni á döfinni. Á það bæði við sveitarfélagið og einkaaðila og tryggir slíkt áfram ný störf, bætta þjónustu, fjölbreytt framboð á íbúðum og sterka innviði. Hér ríkir tiltrú á öflugt samfélag þar sem fjölbreytt þjónusta er í boði ásamt öflugri menningu. Það er undir okkur íbúum komið að viðhalda þessum styrk svo sem með því að nýta þá afþreyingu og þjónustu sem í boði er. Frasinn “VERSLUM Í HEIMABYGGД á alltaf við hvort sem er í miðri jólavertíðinni eða aðra mánuði ársins.
Fjölskyldan í fyrirrúmi
Núna í kringum jól og áramót er gott tækifæri til að staldra aðeins við í amstri dagsins og gleyma ekki að njóta með sínum nánustu. Hvort sem það er að baka smákökur, spila með vinum og fjölskyldu, laufabrauðsgerð eða önnur samverustund, þá eru það þessar gæðastundir sem sitja raunverulega eftir í minningabankanum.
Ég ætla að ná eins mörgum slíkum stundum og hægt er og hvet aðra til hins sama. Þar liggja nefnilega hin raunverulegu verðmæti.
Ég minnist þessa árs með gleði og þakklæti í huga, þakklæti fyrir kærleiksríka fjölskyldu, vini og samferðamenn, sem og traust í garð okkar sem hefur verið treyst til að leiða sveitarfélagið okkar. Við erum að vinna fyrir samfélagið og viljum gera það sem allra best.
Vil ég óska íbúum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.
Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar

