Heimsókn Mennta- og barnamálaráðherra
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, mennta- og barnamálaráðherra, heimsótti Sveitarfélagið Árborg á miðvikudaginn síðastliðinn til að kynna sér skóla- og frístundastarf á svæðinu.
Ráðherra fékk innsýn í fjölbreytt verkefni og framtíðarsýn sem miða að því að auka velferð barna og ungmenna
Í fjölbrautaskóla Suðurlands fékk ráðherra góðar móttökur frá Soffíu Sveinsdóttur skólameistara, ásamt Sigursveini Sigurðssyni aðstoðarskólameistara og fulltrúum nemendafélagsins. Þar var starfsemi skólans kynnt ásamt því að hitta nemendur og starfsfólk.
Heimsóknin hélt áfram í félagsmiðstöðina Zelsíuz þar sem Bragi Bjarnason bæjarstjóri, ásamt Heiðu Ösp Kristjánsdóttur sviðstjóra fjölskyldusviðs, Gunnari E. Sigurbjörnssyni, deildarstjóra frístundarþjónustu og fleiri starfsmenn tóku vel á móti ráðherra.
Guðmunda Bergsdóttir, forstöðumaður frístundahúsa kynnti starf félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuz og Ellý Tómasdóttir, forvarnarfulltrúi sagði frá þróunarverkefninu Elju, sem er styrkt af mennta- og barnamálaráðuneytinu og hefur það að markmiði að styðja við og efla félagsvirkni barna og ungmenna. Auk þess var farið yfir þau tækifæri sem felast í öflugu frístundastarfi.
Að lokum heimsótti ráðherra leikskólann Jötunheima, þar sem leikskólastjórinn Júlíana Tyrfingsdóttir, Guðný Ingibjörg Rúnarsdóttir leikskólaráðgjafi og Heiða Ösp Kristjánsdóttir sviðsstjóri sögðu frá faglegu starfi leikskólans og stöðu leikskólamála í Árborg.
Sveitarfélagið Árborgar þakkar Ásthildi Lóu Þórsdóttur og starfsfólki hennar kærlega fyrir komuna og hlökkum til að eiga í áframhaldandi öflugu samstarfi við mennta- og barnamálaráðuneytið á komandi árum.