Í krafti okkar allra
Fræðsludagur fjölskyldusviðs Árborgar, Í krafti okkar allra, var vel sóttur en hátt í 700 starfsmenn sveitarfélagsins tóku þátt.
Fimmtudaginn 21. ágúst 2025 fór fram árlegur fræðsludagur fjölskyldusviðs Sveitarfélagsins Árborgar í Sunnulækjarskóla. Deginum, sem bar yfirskriftina Í krafti okkar allra, var ætlað að efla faglegt starf, samstarf starfsfólks og skapa vettvang fyrir fræðslu og umræðu.
Að þessu sinni sóttu hátt í 700 starfsmenn leik- og grunnskóla, skólaþjónustu, frístundarþjónustu og velferðarþjónustu fræðsludaginn.
Bragi Bjarnason bæjarstjóri stýrði dagskránni og bauð gesti velkomna. Heiða Ösp Kristjánsdóttir, sviðsstjóri fjölskyldusviðs, fór yfir helstu verkefni liðins árs og kynnti næstu skref framundan. Hún kynnti einnig verkefnið 8-viti æskunnar , sem miðar að því að efla sýnileika farsældar barna í Árborg og mun á næstu misserum halda áfram að vaxa og dafna.
Í tengslum við verkefnið fengu allir gestir bókamerki og hálsband í gjöf sem vísa til 8-vitans, auk þess sem allar stofnanir fengu veggspjald í ramma með mynd af honum .
Á fundinum var jafnframt kynnt læsisstefna Árborgar til ársins 2030 sem ber heitið Læsi til lífs og leiks . Stefnan var unnin af þverfaglegum hópi starfsmanna undir stjórn Margrétar Bjarkar Brynhildardóttur, deildarstjóra skólaþjónustu. Hún kynnti einnig nýja vefsíðu og verkfærakistu sem styður við innleiðingu stefnunnar og veitir starfsfólki hagnýt verkfæri til stuðnings í daglegu starfi.
Dagskráin var fjölbreytt og meðal annars fjölluðu sérfræðingarnir Bergmann Guðmundsson og Hans Rúnar Snorrason, kennarar og eigendur Kunnáttu, um gervigreind í skólastarfi. Þá kynnti EKKO-teymi sveitarfélagsins hlutverk sitt og lagði áherslu á mikilvægi þess að starfsfólk leiti til teymisins þegar á þarf að halda.
Í boði voru fjölbreyttar málstofur þar sem starfsfólk gat valið sér erindi eftir áhuga og starfssviði. Boðið var upp á alls 28 stuttar vinnustofur, 20 mínútur hver, auk 9 lengri málstofa með 40 mínútna erindum. Flest erindin voru í höndum starfsfólks sviðsins sjálfs, en einnig komu nokkrir gestir utan frá.
Deginum lauk á kraftmiklum og eftirminnilegum fyrirlestri Kristínar Þóru, leikkonu, sem bar heitið Á rauðu ljósi – stressið sem fylgir því að vera manneskja. Þar deildi hún reynslu sinni af streitu og kulnun – með húmor og léttleika, en einnig með alvarlegum undirtóni sem fékk marga til umhugsunar.