Íþrótta- og frístundastarfið í Sveitarfélaginu Árborg
Núna þegar skólastarfið er hafið eftir sumarleyfi fer vetrarstarf íþrótta- og frístundafélaganna einnig aftur af stað.
Sjaldan hefur jafn mikið framboð verið í boði fyrir börn og unglinga og vonandi finna sem flestir eitthvað við sitt hæfi enda gott íþrótta- og frístundastarf einn af þeim forvarnaþáttum sem skipta miklu máli í samfélaginu.
Nýir valmöguleikar bætast við
Innan Árborgar sem heilsueflandi samfélags er gríðarlega gróskumikið starf og framboðið í takti við það. Ungmennafélag Selfoss býður áfram upp skipulagt starf í fimleikum, frjálsum íþróttum, handbolta, fótbolta, taekwondo, júdó, sundi og mótorcrossi en í vetur bætast við rafíþróttir í Vallaskóla og borðtennis í Sunnulækjarskóla sem er skemmtileg viðbót við starfið. Körfuknattleiksfélag Selfoss er með æfingar í Vallaskóla ásamt íþróttafélagi Suðra sem heldur utan um íþróttastarf fatlaðra. Golfklúbbur Selfoss opnaði nýja inniæfingaaðstöðu á Svarfhólsvelli sl. vetur og fara nú æfingar félagsins fram þar. Hestamannafélagið Sleipnir verður með regluleg námskeið í reiðhöllinni í vetur og geta börn fengið lánaðan hest og búnað.
Ungliðastarf er í boð hjá Björgunarfélagi Árborgar og Björgunarsveitinni Björg á Eyrarbakka og Ungmennafélögin á Stokkseyri og Eyrarbakka bjóða upp á íþróttaskóla og fótbolta. Skátastarfið er öflugt hjá Fossbúum sem bjóða upp á starf fyrir 11 ára og eldri og Skákfélag Selfoss og nágrennis er með reglulegar æfingar í Fischersetrinu fyrir alla aldurshópa. Tónlistarkennsla er hjá Tónsmiðju Suðurlands og Tónlistarskóla Árnessýslu sem getur að hluta farið fram innan grunnskólanna. Félagsmiðstöðin Zelsíuz og ungmennahúsið Pakkhúsið halda síðan úti fjölbreyttu starfi fyrir 10 ára og eldri. Að auki eru fjölmörg námskeið í boði hjá hinum ýmsu fyrirtækjum á svæðinu líkt og yoga, crossfit, dans og fleira.
Frístundamessan fellur niður
Haldinn hefur verið sérstakur kynningardagur, „Frístundamessa“ á vorin og haustin fyrir íþrótta- og frístundastarfið en vegna COVID þá þarf því miður að fresta slíkum viðburðum að sinni en sveitarfélagið vill benda á að upplýsingar um starfið er hægt að nálgast á heimasíðu sveitarfélagsins og hvers íþrótta- og frístundafélags sem ætti að nýtast foreldrum vel til að fá allar helstu upplýsingar. Frístundastyrkinn er áfram í boði fyrir 5-17 ára börn og frístundaaksturinn sem börn geta nýtt, ásamt innanbæjarstrætó frítt milli byggðarkjarnanna og innan þeirra til að komast til og frá frístundum.
Við höfum öll tekið eftir og upplifað skrítið ár í samfélaginu og hvað þessir daglegu hlutir eru kannski ekki svo sjálfsagðir eftir allt. Það er þó aldrei mikilvægara en á svona tímum að börn og unglingar taki þátt í skipulögðu frístundastarfi og vonandi gefa þessir fjölbreyttu kostir í Árborg öllum tækifæri til þess.






