Jafnrétti í brennidepli
Kynbundinn launamunur á undanhaldi hjá sveitarfélaginu samkvæmt nýlokinni viðhaldsúttekt jafnlaunakerfis.
Niðurstöður viðhaldsúttektar á jafnlaunakerfi Sveitarfélagsins Árborgar í september 2020 sýna áframhaldandi jákvæða þróun í átt að launajafnrétti innan sveitarfélagsins. Launamunur er nú innan við 1% og fer lækkandi. Við getum verið stolt af jafnlaunavottun sveitarfélagsins og jákvæðum niðurstöðum viðhaldsúttektar. Fagleg vinnubrögð eru áberandi þegar niðurstöður eru rýndar og vakti ánægju úttektaraðila.
Ástæða er til að þakka starfsfólki sérstaklega, því að stór hópur starfsfólks Árborgar hefur unnið mikið og vandað starf til að koma okkur á þennan stað. Ljóst er að árangurinn núna er afrakstur samstarfs starfsmanna og markvissra aðgerða í jafnréttismálum.
Sveitarfélagið starfar samkvæmt jafnréttisstefnu sem samþykkt var í september 2019 og felur í sér aðgerðaáætlun um stöðugar umbætur í jafnréttismálum, til fjögurra ára í senn. Markmið jafnréttisstefnu sveitarfélagsins er að launamunur sé undir 2,5% og við erum því vel innan þeirra marka.
Árlegar viðhaldsúttektir vottunarstofunnar BSI á Íslandi, á jafnlaunakerfi sveitarfélagsins, er liður í að viðhalda þeirri jafnlaunavottun sem sveitarfélagið fékk í fyrra. Helstu niðurstöður launagreiningar vegna viðhaldsvottunar leiða í ljós framfarir og sýna umtalsvert betri árangur sveitarfélagsins í jafnlaunamálum. Á þessu ári mælist launamunur á föstum launum innan við 0,94%, konum í óhag, en í fyrra reyndust konur vera með 1,99% lægri föst laun en karlar, að teknu tilliti til helstu skýringarþátta (þ.e. starfahóps, sviðs, menntunar, tegund ráðningar og tegund vinnutímasamnings).
Nú er ár í næstu viðhaldsúttekt og á þeim tíma verður unnið áfram að framtíðaruppbyggingu jafnlaunakerfisins. Við viljum ganga lengra í að samþætta jafnréttismál við starfsemi stofnana sveitarfélagsins þannig að ekki sé um sérstakt átak að ræða heldur að stöðugt sé unnið að umbótum í jafnréttismálum, í tengslum við ráðningar, mat á starfi, starfsþróun, símenntun og samhæfingu starfs og einkalífs.
Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri
