Jólaskreytingar í Árborg
Starfsfólk þjónustumiðstöðvar Árborgar vinnur hörðum höndum við að koma upp jólaskreytingum í sveitarfélaginu.
Hefðbundnar skreytingar verða á Eyrarbakka og Stokkseyri í ár en í skoðun er að bæta í þar á næstu árum. Nýjasta viðbótin á Selfossi er náttúrulega himnasængin í nýjum miðbæ sem er á vegum sveitarfélagsins ásamt því að koma fyrir glæsilegu jólatré á Brúartorginu.
Einnig hefur Björgunarfélag Árborgar séð um að endurnýja allar seríur á Ölfusárbrú og bætt við í samræmi við hönnun, á næsta ári verður svo bætt enn frekar í á brúnni sem og fleiri stöðum.
Til viðbótar er í smíðum bogagöng sem verða upplýst í Tryggvagarði. Vonast er til að þessar viðbætur mælist vel fyrir hjá íbúum og gestum Árborgar.