Jónsmessuhátíð Eyrarbakka 2023
Jónsmessuhátíð Eyrarbakka 2023 gekk vonum framar miðað við veðurfar.
Hátíðin byrjaði á föstudeginum með Kílókeppni sem Ungmennafélag Eyrarbakka hélt og endaði það með grillveislu og til að ljúka þeim degi voru fríir tónleikar á Skrúfunni, grósku- og sköpunarmiðstöðinni á Eyrarbakka.
Á laugardeginum var fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna þar sem meðal annars Latabæ, Lögreglu-, sjúkra- og slökkviliðsbílar mættu í heimsókn fyrir börn til að skoða og var körfubílinn nýttur til að vera með stórkostlegt karamellukast fyrir börnin sem var til mikillar gleði hjá ungum sem öldnum.
Einnig var boðið upp á hoppukastala, Víkingatjald og dansa frá Þjóðdansafélag Reykjavíkur. Skapandi ungmenni í Árborg voru með atriði sem þótti heppnast vel.
Rauða Húsið töfraði fram sína árlegu kjötsúpu, sem var í boði fyrir alla sem mættu með ílát. Hestvagnaferðir um þorpið voru í boði Byggðasafns Árnesinga. Jafnframt voru söfn byggðasafnsins opin, auk þess sem einstaklingar opnuðu hús sýn fyrir gestum og gangandi.
Samsöngur var í Húsinu um kvöldið og var hann vel sóttur. Í framhaldi af samsöng var brenna í fjörunni með eldgleypi og trúbador þar sem Sigrún Þuríður flutti ávarp fyrir gesti. Að lokinni brennu var ball á Rauða Húsinu fram eftir nóttu.
Jónsmessuhátíðarnefndin telur hátíðina hafa gengið vel og fá hrós frá Eyrbekkingum og öllum íbúum í Árborg fyrir vel unnin störf.