Lestarátakið Tími til að lesa: Stefna að nýju heimsmeti í lestri
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hleypir í dag af stokkunum lestrarverkefni fyrir þjóðina, þar sem börn og fullorðnir eru hvött til að nýta til lesturs þann tíma sem gefst við núverandi aðstæður.
Lestrarverkefnið kallast Tími til að lesa og er rithöfundurinn og leikarinn Gunnar Helgason sérstakur talsmaður verkefnisins. Er heiti verkefnisins sagt vera dregið af aðstæðunum sem nú eru uppi, þar sem margir hafi meiri tíma en áður til að lesa og þörfin fyrir hugarleikfimi hefur sjaldan verið meiri.
Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að árangurinn sé mældur í tíma, þar sem Íslendingar séu hvattir til að skrá allan sinn lestur á vefsíðunni timitiladlesa.is. „Þar geta þátttakendur líka fylgst með sameiginlegum lestri þjóðarinnar frá degi til dags. Á næstu fjórum vikum munu þar safnast upp ýmsar upplýsingar um lestur, hugmyndir að lesefni fyrir ólíka aldurshópa, hvatningarmyndbönd frá rithöfundum og öðrum sem segja okkur hvað og hvar þeim finnst gaman að lesa.
Allir íbúar Árborgar eru hvattir til að taka þátt í þessu gagnlega og skemmtilega verkefni.
Sjá einnig frétt á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis. Sjá nánar hér.