Listaverk í Ráðhúsi Árborgar
Litrík og tilfinningaþrungin olíumálverk eftir abstraktlistamanninn Jakob Veigar Sigurðsson prýða nú skrifstofur, viðtals- og fundarherbergi í Ráðhúsi Árborgar, Selfossi.
Rúmlega 20 málverk voru sett upp nýverið og munu standa í ráðhúsinu í 2 ár. Verkin eru í eigu listamannsins og eru til sölu.
Bæjarstjóri lagði til að sett yrðu upp listaverk á bæjarskrifstofurnar, til að glæða rýmið lífi og efla sköpun og vellíðan í daglegu starfi. Listasafn Árnesinga sá um uppsetningu verkanna en safnið er í eigu Héraðsnefndar Árnesinga og öll sveitarfélög Árnessýslu eiga aðild að henni. Eitt af markmiðum safnsins er að styðja við og vekja athygli á starfandi listamönnum í sýslunni. Því þótti tilvalið að gera samkomulag við myndlistarmanninn og Hvergerðinginn Jakob Veigar um lán á verkum til ráðhússins.
Jakob Veigar (1975) starfar og býr í Vínarborg en er uppalinn í Hveragerði. Hann fetaði fremur seint inn á veg myndlistarinnar eftir að hafa snúið baki við byggingariðnaðinum. Hann útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2016 og sem „Herr Magister“ í myndlist frá Akademie der bildenden Künste í Vínarborg 2019.
Málverkið er hans aðal miðill og er innblásið af persónulegri reynslu, alkóhólískum huga sem reynir að skilja samfélagið sem hann dvelur í á hverjum tíma ásamt djúpri tengingu hans við náttúruna.