Lokakeppni Stóru upplestrarkeppninnar 2025
Lokakeppni Stóru upplestrakeppninnar í Árborg var haldin í Stekkjaskóla 27. mars síðastliðinn.
Lokakeppnin er samstarfsverkefni grunnskólanna og Skólaþjónustu Árborgar og hefur undirbúningur staðið yfir frá Degi íslenskrar tungu 16. nóvember sl.
Á undirbúningstímabilinu fá allir nemendur 7. bekkja grunnskóla sveitarfélagsins þjálfun í vönduðum upplestri. Í hverjum skóla fór fram undankeppni og eru það sigurvegarar hennar sem taka þátt í stóru upplestrarkeppninni. Að þessu sinni voru keppendur 11 talsins.
Stóra upplestrarkeppnin fór þannig fram að keppendur lásu þrisvar sinnum. Í fyrstu umferð var lesið textabrot úr bókinni Draumur eftir Hjalta Halldórsson, næst voru lesin ljóð eftir fyrirfram ákveðna höfunda og í þriðju umferð lásu nemendur ljóð að eigin vali.
Halldór Steinar Benjamínsson kynnti höfundinn en hann vann keppnina árið 2024. Kynnir keppninnar var Álfheiður Tryggvadóttir, deildarstjóri í Stekkjaskóla. Á milli upplestranna var boðið upp á glæsileg tónlistaratriði sem nemendur úr Stekkjaskóla sáu um.
Dómnefndina skipuðu þau Anna Linda Sigurðardóttir, Hildur Bjargmundsdóttir, Hrund Harðardóttir, Ragnheiður Ragnarsdóttir og Sigríður Pálsdóttir. Formaður dómnefndar hafði á orði að nefndinni hefði verið mikill vandi á höndum þar sem keppendur voru mjög vel undirbúnir og stóðu sig allir með miklum sóma.
Sigurveragi keppninnar í ár var Arnar Bent Brynjarsson úr Vallaskóla, í öðru sæti var Elísabet Kristel Þorsteinsdóttir úr Vallaskóla og í þriðja sæti var Árný Ingvarsdóttir einnig úr Vallaskóla.
Sigurvegurum og keppendum sem og skólunum er óskað til hamingju með glæsilega keppi og flottan árangur.