Mat á fjárhagslegum áhrifum af framkvæmdum við Stekkjaskóla
Í samræmi við 66. grein sveitarstjórnarlaga óskaði Sveitarfélagið Árborg eftir að KPMG legði sérstakt mat á áhrif skólabyggingar Stekkjaskóla (1. áfanga) á fjárhag sveitarfélagsins.
Matið er byggt á fjárhagsáætlun Árborgar 2021-2024 sem var samþykkt í bæjarstjórn þann 16. desember 2020 og upplýsingum sem starfsmenn Árborgar hafa látið KPMG í té.
Skýrsla KPMG fylgir hér í viðhengi en megin niðurstöður matsins eru að til skemmri tíma reyni mjög á fjárhag sveitarfélagsins vegna framkvæmda við Stekkjarskóla og mikilla annarra fjárfestinga sveitarfélagsins. Samhliða hraðri uppbyggingu og fjölgun íbúa fylgja einnig auknar útsvars- og fasteignagjaldatekjur. Til lengri tíma litið ættu auknar tekjur að standa undir uppbyggingu og rekstri innviða í sveitarfélaginu eins og Stekkjaskóla.
Úr sveitarstjórnarlögum:
66. gr. Miklar fjárfestingar og skuldbindingar.
Áður en sveitarstjórn tekur ákvörðun um fjárfestingu, framkvæmd eða aðra skuldbindingu sem nemur hærri fjárhæð en 20% af skatttekjum sveitarfélagsins yfirstandandi reikningsár er skylt að gera sérstakt mat á áhrifum hennar á fjárhag sveitarfélagsins. Hér undir falla m.a. framkvæmdir, fjárfestingar í eignum, samningar um þjónustu, sölu og endurleigu fasteigna, fjármögnunarsamningar, rekstrarleigusamningar og því um líkar ráðstafanir. Hér undir falla einnig ákvarðanir um veitingu ábyrgða skv. 69. gr. og þær ákvarðanir fyrirtækja og stofnana sveitarfélags sem leiða til þess að ábyrgðarskuldbindingar sveitarfélags hækka um sem nemur hærri fjárhæð en 20% af skatttekjum viðkomandi ár.