Menningarmánuðurinn október í sextánda sinn
Þann 1. október næstkomandi hefst í sextánda sinn, Menningarmánuðurinn október í Árborg. Dagskráin 2025 er fjölbreytt að vanda og viðburðir í boði fyrir alla aldurshópa samfélagsins. Hátíðin er mótuð af íbúum sveitarfélagsins, félagasamtökum og fleirum. Í henni kynnumst við miklu af því glæsilega menningar- og listastarfi sem fram fer í sveitarfélaginu Árborg.
Menningarmánuður hefst með kröftugum hætti 1. okt á Glæpakvöldi Bókasafns Árborgar á Selfossi sem í samstarfi við Hið íslenska glæpafélag fá í heimsókn nýliða í glæpafélaginu, Elizu Reid, Arndísi Þórarinsdóttur og Guðjón H. Bernharðsson. Ævar Örn Jósepsson glæpaforingi mun stýra umræðum.
Félag eldri borgara á Selfossi fær til sín frábæra gesti á Fimmtudagsskemmtanir, Byggðasafn Árnesinga er með viðburði alla sunnudaga, opið frá kl. 13 - 17 og frítt inn. Leikfélögin á Selfossi og Eyrarbakka standa fyrir dagskrá og Myndlistarfélag Árnesinga býður upp á hvorki meira né minna en 21 viðburð í október.
Ölfusárbrúin á 80 ára afmæli í ár og verður því gert skil í gluggasýningu Héraðsskjalasafnsins að Austurvegi 2 og stútfullri dagskrá á Sögukvöldi 8. október þar sem Lýður Pálsson flytur erindi, ljósmyndasýning Ragnars Sigurjónssonar „Dekkið“ verður afhjúpuð, Kristján Ólafsson leikur á harmonikku og Kjartan Björnsson veislustýrir.
Í ár verður bæði Þjóðmenningarhátíð og Fjölmenningarhátíð. Þjóðbúningafélag Íslands í samstarfi við Byggðasafnið og Árborg verða með dagskrá 11. - og 12. október. Fjölmenningarhátíð verður síðan þann 25. október á Stað, Eyrarbakka frá kl. 14 - 17.
Lóaboratoríum verður með smiðju fyrir börn á Bókasafni Árborgar, List fyrir alla býður upp á Múrbalasmiðjur í grunnskólum Árborgar fyrir alla nemendur á miðstigi og hrekkjavökunni verða gerð góð skil með myrkrasýningu í Listagjánni. Fjölmargir listamenn verða með opnar vinnustofur, nemendur FSU sýna í Sundhöll Selfoss, Zelsíus og Sundhöllin með miðnætursund, skátarnir kvöldvöku og í ár verða Menningarverðlaun Árborgar endurvakin og veitt þann 26. október á Byggðasafni Árnesinga.
Við hvetjum íbúa sveitarfélagsins og alla aðra til þess að kynna sér dagskrána og njóta saman menningar og listar í október.
Dagskrá menningarmánaðar má sjá í heild sinni á viðburðadagatali sveitarfélagsins.