Námsferð skólaþjónustu til Póllands
Í september 2024 fór hópur frá Fjölskyldusviði Árborgar í námsferð til Póllands á vegum Erasmus+.
Skólaþjónustan sótti um styrk fyrir verkefninu sem ber heitið Skólaþróun, inngildandi skólastarf með áherslu á áfallamiðaða nálgun við móttöku flóttafólks og nemenda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.
Verkefnisstjóri og ráðgjafi í málefnum flóttafólks frá velferðarþjónustu Árborgar voru einnig þátttakendur í verkefninu og fóru með í ferðina.
Verkefnið var undirbúið í samstarfi við prófessora í háskólunum í Gdansk og Varsjá
Hópurinn kynnti sér inngildandi skólastarf í Póllandi fyrir börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn, málþroska fjöltyngdra barna og nýútgefin skimunartæki til að stuðla að bættari þjónustu og úrræðum fyrir innflytjendur og flóttafólk þar sem áfallamiðuð nálgun er lögð til grundvallar.
Í Póllandi barst hópnum vegleg bókagjöf frá MultiLADA sem er rannsóknarhópur í Háskólanum í Varsjá um málþroska fjöltyngdra barna. Bækurnar eru barnabækur á úkraínsku og pólsku og hafa nú verið afhentar Bókasafni Árborgar og verða þar aðgengilegar öllum.