Öðruvísi öskudagur 17.febrúar
Almannavarnir í samvinnu við Embætti landlæknis og Heimili og skóla hafa tekið saman leiðbeiningar varðandi öskudaginn, miðvikudaginn 17.febrúar og vill Sveitarfélagið Árborg koma eftirfarandi á framfæri.
Sungið fyrir sælgæti
Stofnanir hjá Sveitarfélaginu Árborg (Bókasafn og sundlaugar) munu í ljósi aðstæðna í samfélaginu ekki bjóða upp á sælgæti fyrir söng þetta árið en vonandi verður hægt að gera eitthvað sambærilegt síðar á árinu. Einhver fyrirtæki á svæðinu bjóða upp á sælgæti fyrir söng og eru allir beðnir um að gæta sóttvarna og gefa aðeins sérinnpakkað sælgæti líkt og Embætti landlæknis leggur til.
Gerum okkur dagamun í nærumhverfinu
Höldum upp á daginn á heimavelli, í skólanum, frístundaheimilinu eða félagsmiðstöðinni.
Mætum í búningum
Brjótum upp á hversdagsleikann með því að mæta öll í búningum. Ungir sem aldnir.
Endurvekjum gamlar hefðir
Nú er tækifæri að endurvekja gamlar öskudagshefðir eins og að búa til öskudagspoka og slá köttinn úr tunnunni. Með sóttvarnir í huga að sjálfsögðu.
