Opnun Stekkjaskóla og kynning á nemendafærslu milli skóla
Skólastjórnendur í Árborg og stjórnendur hjá skólaþjónustu eru nú að undirbúa opnun Stekkjaskóla næsta haust og nemendafærslu frá Sunnulækjarskóla og Vallaskóla í nýja skólann. Stefnt er að því að senda kynningarbréf til foreldra í lok vikunnar.
Í fyrstu verður Stekkjaskóli starfræktur í rúmgóðum, snyrtilegum og færanlegum kennslustofueiningum sem verða allar tengdar saman með miðrými. Stefnt er að því að taka fyrsta áfanga nýbyggingar Stekkjaskóla í notkun haustið 2022. Nokkur góð dæmi eru til hér á landi af stofnun nýrra skóla í færanlegum kennslustofueiningum og má þar til að mynda nefna Norðlingaskóla í Reykjavík og Stapaskóla í Reykjanesbæ.
Lögð verður áhersla á að skólalóðin verði vel afmörkuð og henti vel til útikennslu og leikja. Jafnframt verða byggingasvæði í næsta nágreinni afgirt.
Nemendur Stekkjaskóla fara með skólabílum í sund í Sundhöll Selfoss og íþróttir í Vallaskóla.
Búið er að ráða tvo skólastjórnendur og tók Hilmar Björgvinsson formlega til starfa sem skólastjóri 1. janúar síðastliðinn og Ástrós Rún Sigurðardóttir hefur verið ráðin sem aðstoðarskólastjóri frá og með 1. mars nk. Bæði hafa þau mikla og góða reynslu af kennslu- og stjórnunarstörfum í grunnskólum. Ástrós og Hilmar ætla leggja áherslu á skapandi og sveigjanlega kennsluhætti, gott samstarf við foreldra og vellíðan nemenda og alls starfsfólks. Þau munu halda fund með foreldum er nær dregur vori.
