Ráðning deildarstjóra skólaþjónustu á fjölskyldusviði
Eftir gagngera skoðun umsóknargagna og viðtöl við nokkra umsækjendur var ákveðið að ráða Margréti Björk Brynhildardóttur í starf deildarstjóra skólaþjónustu en alls bárust 11 umsóknir en ein umsókn var dregin til baka.
Margrét Björk starfar sem náms- og starfráðgjafi og forvarnarfulltrúi við Menntaskólann á Ísafirði og hefur víðtæka þekkingu á skólamálum, náms- og starfsráðgjöf, fræðslu og stjórnun. Á árunum 2018-2020 var hún kennslustjóri við Háskólasetur Vestfjarða. Þá hefur Margrét Björk starfað við Árskóla á Sauðárkróki, tók meðal annars þátt í að skipuleggja ráðstefnur um upplýsingatækni í skólastarfi og menntabúiðir fyrir starfsfólk grunnskóla í Skagafirði (EdCamp). Þá hefur hún gegnt starfi verkefnastjóra hjá sóknaráætlun Norðurlands og verið í hlutastarfi hjá Háskólanum á Hólum. Auk þess hefur Margrét Björk starfað hjá barnavernd Kópavogs og bæði haldið og sótt fyrirlestra og námskeið um ýmis málefni, m.a. hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.
Margrét Björk er með MA próf í náms- og starfsráðgjöf frá Háskóla Íslands. Þá hefur hún BA próf í félagsráðgjöf frá Den Sociale Højskole í Odense og diploma í náms- og starfráðgjöf. Hún stundar MLM nám í forystu og stjórnun með áherslu á mannauðsstjórnun við Háskólann á Bifröst og viðbótardiplómu í menntunarfræðum frá Háskólanum á Akureyri.