Rekstur Árborgar styrkist áfram - Jákvætt árshlutauppgjör
Sveitarfélagið Árborg hefur náð góðum árangri í rekstri samkvæmt nýbirtu árshlutauppgjöri fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2025. Uppgjörið sýnir jákvæða þróun og áframhaldandi framfarir í fjármálum sveitarfélagsins.
Samkvæmt uppgjörinu hefur áfram tekist að bæta rekstrarstöðu sveitarfélagsins, sem er að skila sér í betri fjárhagslegri stöðu og auknum stöðugleika. Það er mikilvægur áfangi að afkoma A- og B-hluta í sex mánaða uppgjörinu sé jákvæð um 352 milljónir króna. Rekstrarhagræðing, minni skuldsetning og auknar tekjur, m.a. í formi sölu byggingarréttar, íbúafjölgunar og álags á útsvarið árið 2024 hafa áhrif á þessa góðu niðurstöðu.
Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar, fagnar þessum árangri sem er að skila sér eftir erfiðar aðgerðir undanfarin ár. „Við fögnum árangrinum sem er samstarfsverkefni kjörinna fulltrúa, starfsmanna og íbúa. Mikilvægt er að halda áfram á þessari braut og tryggja ábyrgan rekstur sveitarfélagsins. Þessi jákvæða niðurstaða skapar þann grunn sem við höfum talað fyrir til þess að geta lækkað álögur á íbúa. Því íbúar eiga að njóta árangursins.“ segir Bragi.
Framundan eru áframhaldandi áskoranir við að gera grunnrekstur sveitarfélagsins, svokallaðan A-hluta, sjálfbæran á næstu árum. Mikill árangur hefur náðst og er Sveitarfélagið Árborg staðráðið í að nýta þennan góða árangur sem grunn til frekari uppbyggingar og þjónustu við íbúa.
6 mánaða árshlutauppgjor Árborgar 2025