Rífandi stemning á rómantískum ágústmánuði Bókasafns Árborgar
Einstök stemning þar sem bókmenntir, listir og ást blönduðust saman í fjölbreyttri dagskrá.
Dagskráin sem fékk nafnið „Einu sinni á ágústkvöldi“ var litrík og fjölbreytt en Bókasafn Árborgar fékk veglegan styrk frá Bókasafnasjóði til að halda rómantískan ágústmánuð á söfnunum og víðar.
Múmínálfarnir fengu sinn eigin viðburð í Múmín-skreyttri barnadeild og Ástarsögufélagið mætti með upplestur á eigin sköpunarverkum.
Ástartengdar höfundakynningar voru á skáldum úr heimahéraði þeim Völu Hauksdóttur, Arndísi Tyrfingsdóttur og Söndru Clausen.
Tveir ástarsöguhöfundar, þær Snjólaug Bragadóttir og Birgitta H. Halldórsdóttir voru heiðraðar sem og Jane Austen, sem reyndar er langt að komin, en ævinlega vinsæl hér í Árborg sem annarsstaðar.
Að endingu kom snillingurinn Gunnar Helgason og las Ástarsögu úr fjöllunum fyrir börn á öllum aldri og tröllið Tufti lét sig ekki vanta. Viðburðirnir voru haldnir í húsakynnum Bókasafnsins á Selfossi, Konubókastofu á Eyrarbakka og Brimrótar á Stokkseyri.
Dagskráin fékk afar góðar viðtökur! Allir viðburðir voru vel sóttir og skapaðist einstök stemning. Gestir nutu viðburða og veitinga en ekki síður samverunnar sem myndaðist í kringum þessa fjölbreyttu viðburði.
Þetta var sannkölluð hátíð menningar og lífsgleði í Árborg.
Við þökkum Bókasafnasjóði og öllum sem komu að þessu með okkur, gestum sem og þátttakendum, innilega fyrir.