Röskun á skólastarfi Álfheima og Vallaskóla v/COVID-19
Að kröfu smitrakningarteymis almannavarna og sóttvarnalæknis fara öll börn á Álfasteini og Dvergasteini í leikskólanum Álfheimum í sóttkví frá og með 16. apríl til og með 23. apríl þar sem þau voru mögulega útsett fyrir smiti vegna COVID-19.
Þá fara allir starfsmenn á Mánasteini einnig í sóttkví. Foreldrar fá nánari upplýsingar frá smitrakningarteyminu á næstu dögum sem og sms strikamerki sem þarf að framsýna í sýnatökunni sem fram fer á sjöunda degi.
Ef ungt barn er sett í sóttkví er nauðsynlegt að fullorðinn einstaklingur fari í sóttkví með barninu, aðrir heimilismeðlimir þurfa ekki að fara í sóttkví nema að annað sé tekið fram. Samkvæmt verklagi smitrakningarteymis þá er einungis barnið skráð formlega í sóttkví en forráðamaður sem er með barninu í sóttkví er ekki skráður í sóttkví. Barnið fær boð í sýnatöku á sjöunda degi en ekki forráðamaður sem er með barninu í sóttkví. Aftur á móti ef forráðamaðurinn fær einkenni þá skal hann óska eftir því að fara í sýnatöku á vefsíðunni heilsuvera.is eða hringja í sína heilsugæslu ef hann hefur ekki aðgang að síðunni. Rétt er að minna á að forráðamaður á að geta fengið vottorð barns í gegnum heilsuveru til staðfestingar fjarveru frá vinnu.
Í Vallaskóla hefur vaknað grunur um COVID-19 smit, annars vegar hjá barni í 2. bekk og hins vegar hjá barni í 4. bekk, þó er ekki um staðfest smit að ræða.Til að gæta fyllsta öryggis og varúðar hafa foreldrar verið beðnir um að hafa börn sín sem eru í þessum bekkjum heima í úrvinnslusóttkví (allt að tvo daga) á meðan unnið er að frekari smitrakningu í skólanum. Allt heimilisfólk er einnig beðið um að vera heima á meðan úrvinnslusóttkví stendur. Nánari upplýsingar verða sendar út um leið og þær liggja fyrir. Af sömu ástæðu verður frístundaheimilið Bifröst lokað og mögulega einnig á morgun miðvikudag.
Röskun á skólastarfinu. Eðlilega er mikil röskun á skólastarfi Álfheima, Vallaskóla og Bifrastar og margir fara í skimun í dag, þriðjudaginn 20. apríl. Skólastjórnendur eru í góðu sambandi við rakningateymið og senda upplýsingapóst til forráðamanna nemenda og starfsfólks um leið og nýjar upplýsingar berast frá teyminu.
