Samstarf við Innviðaráðuneytið
Bæjarstjórn Árborgar samþykkti samhljóða á fundi sínum 1.mars 2023 að ganga til samninga við Innviðaráðuneytið um samstarf við fjárhagslegar aðgerðir og eftirlit í tengslum við endurskipulagningu á rekstri sveitarfélagsins.
Bæjarstjórn Árborgar og starfsmenn sveitarfélagsins vinna nú að markvissum aðgerðum við endurskipulagningu á rekstri Sveitarfélagsins Árborgar
Sú vinna gengur vel og margar aðgerðir nú þegar komnar til framkvæmda. Gert er ráð fyrir að heildar aðgerðaáætlun verði tilbúin í byrjun apríl og komi til framkvæmda í framhaldinu.
Horft er til þess að halda í grunnþjónustu við íbúa en um er að ræða m.a. aðgerðir tengdar fjárfestingum, fjármögnun og almennum rekstri sveitarfélagsins.
Það er mikilvægt fyrir sveitarfélagið að hafa öflugan stuðning ráðuneytisins við þá vinnu sem er í gangi. Auk þess gefur samkomulagið sveitarfélaginu möguleika á viðbótarframlagi úr Jöfnunarsjóði sem nýtist til greiðslu ráðgjafakostnaðar við verkefnið.
Grunnmarkmið samkomulagsins milli sveitarfélagsins og innviðaráðuneytisins eru tvíþætt:
- Stuðla að markvissri vinnu við fjárhagslega endurskipulagningu og hagræðingu í rekstri sveitarfélagsins til að treysta fjárhagslega sjálfbærni svo fjárhagslegum viðmiðum sveitarstjórnarlaga verði náð.
- Setja fram og fylgja eftir aðgerðaráætlun til að ná fram markmiðum í lið 1
Verkefnið er krefjandi en um leið eru tækifæri til staðar í slíkri endurskipulagningu. Þar má m.a. nefna nýtingu tæknilausna sem geta bætt þjónustu en um leið lækkað kostnað.
Áhugi á uppbyggingu íbúða og atvinnureksturs innan sveitarfélagsins er auk þess mikill sem gefur tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar fyrir samfélagið og tekna fyrir sveitarfélagið í heild.