Samþykkt að klára hönnun 1.áfanga frístundamiðstöðvar
Bæjarstjórn Árborgar hefur samþykkt tillögu starfshóps um að klára hönnun og gerð útboðsgagna fyrir 1.áfanga, tengibyggingu og frágang lóðar við frístundamiðstöð við Selfossvöll.
Á 40. fundi Bæjarstjórnar Árborgar lagði starfshópur um frumhönnun frístundamiðstöðvar fram tillögu um næstu skref uppbyggingar frístundamiðstöðvar í Sveitarfélaginu Árborg. Tillagan fól í sér að klára hönnun og útboðsgögn fyrir 1.áfanga ásamt tengibyggingu og frágang lóðar. Starfshópurinn lagði að auki til að verkefnið yrði sett á fjárfestingaáætlun fyrir árin 2022 og 2023 með það að markmiði að starfsemi gæti hafist í húsnæðinu í lok sumars 2023. Með tillögunni fylgdi greinagerð sem sjá má að neðan.
Staðsetning frístundamiðstöðvar er fyrirhuguð sunnan við nýju íþróttahöllina á Selfossvelli (við Stóra hól) með aðgengi frá Langholtinu og er í lóðarhönnun gert ráð fyrir stóru útivistarsvæði kringum húsnæðið.
Greinagerð með tillögu starfshóps
Sveitarfélagið Árborg er í hröðum vexti og hluti þeirrar starfsemi sem er hugsuð í frístundamiðstöð er í brýnni þörf á úrbótum í húsnæðismálum og telur starfshópurinn að þetta verkefni sé góð lausn til framtíðar. Í frumhönnun frístundamiðstöðvar fyrir fyrsta áfanga er m.a. gert ráð fyrir eftirfarandi starfsemi:
- Frístundaklúbbnum Kotinu
- Nýja frístundaklúbbnum sem starfar samhliða Kotinu
- Klúbbinum Strók
- Auðlindinni og Verum virk
- Skátafélaginu Fossbúum
Með tilfærslu þessarar starfseininga í frístundamiðstöð gefst sveitarfélaginu tækifæri til að selja tvær stórar lóðir ásamt mannvirkjum. Það eru Tryggvagata 36 og Skólavellir 1 á Selfossi en þær tekjur geta komið á móti byggingarkostnaði við nýtt húsnæði starfseminnar. Sveitarfélagið getur að auki sagt upp leigu á iðnaðarhúsnæði í Gagnheiði sem Auðlindin - Verum virk nýtir í dag.
Ef starfsemi á að hefjast í 1.áfanga húsnæðisins í lok sumars 2023 er mikilvægt að hefja fullnaðarhönnun sem fyrst. Tilboð í fullnaðarhönnun 1.áfanga og gerð útboðsgagna er um 31 milljón og bendir starfshópurinn á að gert sé ráð fyrir 13-14 milljónum upp í þann kostnað í fjárhagsáætlun 2021. Því þurfi ekki viðauka heldur að gert sé ráð fyrir allt að 20 milljónir í þann hluta í fjárhagsáætlun 2022. Þar sé um að ræða kostnað í samræmi við tilboð hönnuða og möguleg viðbótarverk. Starfshópurinn leggur að auki áherslu á að verði tillagan samþykkt þá verði við lokahönnun hugsað sérsaklega til umhverfisvænna valkosta.
Líkt og áður hefur komið fram er grunnhugmyndin að frístundamiðstöðinni að búa til aðstöðu og umhverfi til að bæta frístundaþjónustuna við íbúa og bjóða upp á enn fjölbreyttari möguleika en standa nú til boða. Sveitarfélagið Árborg styður vel við íþrótta- og frístundastarfið á svæðinu og stefna bæjarstjórnar Árborgar hefur verið að finna leiðir til að bæta starfsemina, nýta fjármagn vel og skilgreina framtíðarsýnina með skipulagðri uppbyggingu mannvirkja og heildarstarfseminnar fremur en skammtímalausna.
Starfshópnum finnst tillaga frumhönnunarteymis falla vel að þessum þáttum. Meginmarkmiðið að hanna hagkvæma og vel útfærða byggingu sem mæti þörfum metnaðarfulls frístundastarf hafi náðst. Byggingin er að auki með góða nýtingarmöguleika og getur vaxið til framtíðar. Allt eftir þörfum notenda og samfélagsins. Hún mun því auka aðstöðu fyrir fjölbreytt frístundarstarf án aðgreiningar, þar sem mismunandi hópar barna og fullorðinna geta komið saman og veitt hvort öðru stuðning og fræðslu.
Starfshópur: Arna Ír Gunnarsdóttir, Sveinn Ægir Birgisson, Atli Marel Vokes, Bragi Bjarnason og Gunnar Eysteinn Sigurbjörnsson. Með hópnum starfaði Þórður Ásmundsson frá Varða verkþjónustu.
Bæjarstjórn Árborgar samþykkti tillöguna og fer verkefnið því í fullnaðarhönnun og úrvinnslu við gerð fjárfestingaáætlunar næstu ára.