Símavinir eldri borgara í Árborg
Eftir umræður í m.a. viðbragðsstjórn Árborgar ákvað stjórnin að boða til samráðsfundar með formanni félags eldri borgara, fulltrúa sveitarfélagsins í samráðshópi áfallamála, forstöðumanni félagslegrar heimaþjónustu, forstöðumanni dagdvalanna og fulltrúa Rauðakrossins miðvikudaginn 8. apríl sl. v/símhringiverkefnis fyrir eldri borgara í Árborg.
Á samráðsfundinum kom fram að félag eldri borgara hafði hringt í sína félagsmenn og að Rauði krossinn sinni símaþjónustu við fólk á öllum aldri. Allir voru sammála um að gagnsemi símhringiverkefnis fyrir eldra fólk og gæti það verið liður í því að sýna náungakærleik, kanna líðan, rjúfa félagslega einangrun og ræða það sem brennur á hjá viðkomandi.
Fulltrúa í samráðshópi áfallamála, og sviðsstjóra, var falið að vinna málið áfram. Símaviðtalsrammi var unninn og er þar til að mynda spurt um aðstæður hvers og eins, vakin athygli á síma Rauða krossins 1717 og óskað eftir ábendingum um úrbætur á þjónustu. Umsjónarmenn félagsmiðstöðvar tóku að sér að verkefnastjórn. Nú hefur verið hringt í stóran hluta íbúa 80 ára og eldri og hefur verkefnið gengið afar vel. Starfsfólk félagsmiðstöðarinnar Zelsíuz og ungmennahúss, dagdvalanna Árbliks og Vinaminnis sem og ráðgjafar félagsþjónustu hafa að undanförnu verið í hlutverki símavina.
