Samþykkt tilboð í hönnun frístundamiðstöðvar í Árborg
Sveitarfélagið Árborg hefur samþykkt að loknu útboði, tilboð VSB Verkfræðistofu og Yrki arkitekta í frumhönnun á nýrri frístundamiðstöð við Selfossvöll.
Tilboðin voru tekin fyrir á 22.fundi frístunda- og menningarnefndar og samþykkt að ganga til samninga við lægstbjóðenda en tvö tilboð bárust frá:
- VSÓ Ráðgjöf 65.943.075
- VSB Verkfræðistofa og Yrki arkitektar 52.855.756
VSB Verkfræðistofa og Yrki arkitektar skiluðu inn lægra tilboði og reyndist það eftir yfirferð vera kr. 13.912.808- fyrir 1. áfanga en í áætlun eru fjárheimildir fyrir kr. 28.000.000-.
Til nánari útskýringar þá var í útboði óskað eftir að tilboðsgjafar legðu fram tilboð í alla þrjá áfanga verksins auk mögulegra viðbótarverka. Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Árborgar þarf eftir lok 1. áfanga að taka ákvörðun um hvort haldið verði áfram í næstu áfanga sem og veita mögulegar fjárheimildir. Verði samþykkt að fara í 2. og 3.áfanga er tilboð VSB og Yrki, fyrir utan möguleg viðbótarverk, 103% af kostnaðaráætlun eða kr. 48.047.756- en áætlun er kr. 46.750.000-.
Nánari upplýsingar má lesa í meðfylgjandi minnisblaði
Hvað er frístundamiðstöð?
Grunnhugmyndin að frístundamiðstöðinni á Selfossi er að búa til aðstöðu og umhverfi til að bæta frístundaþjónustuna við íbúa og bjóða upp á enn fjölbreyttari möguleika en standa nú til boða. Sveitarfélagið Árborg styður vel við íþrótta- og frístundastarfið á svæðinu og stefna bæjarstjórnar Árborgar hefur verið að finna leiðir til að bæta starfsemina, nýta fjármagn vel og skilgreina framtíðarsýnina með skipulagðri uppbyggingu mannvirkja og heildarstarfseminnar fremur en skammtímalausna. Með byggingu frístundamiðstöðvar væru margar stofnanir sem sinna frístundastarfi sameinaðar á einum stað sem eykur m.a. hagræðingu í rekstri, faglega samvinnu og framboð á þjónustu. Til yrði aðstaða fyrir frístundarstarf án aðgreiningar, þar sem mismunandi hópar barna og fullorðinna koma saman og veita hvort öðru stuðning og fræðslu.
Meginmarkmiðið er að byggja hagkvæma og vel útfærða byggingu sem mætir þörfum metnaðarfulls frístundastarfs og skipulag verði með þeim hætti að samnýting á milli stofnana verði góð.
