Umhverfisviðurkenningar Svf. Árborgar 2023
Umhverfisnefnd Sveitarfélagsins Árborgar afhenti um helgina umhverfisviðurkenningar ársins 2023.
Nefndin kallaði eftir tillögum frá íbúum í eftirfarandi flokkum: fallegusti garðurinn, snyrtilegasta fyrirtækið, fallegusta gatan og framlag til umhverfismála.
Fjöldi tilnefninga kom inn frá íbúum Árborgar. Nefndarmenn fóru yfir tilnefningarnar og kusu á endanum milli þeirra sem komu helst til greina í hverjum flokki.
Viðurkenningarnar skiptast eftirfarandi árið 2023:
Fallegasta gatan er Suðurengi
Suðurengi var valin þar sem götumyndin er gróin og vel hirt. Við götuna eru fallegar innkeyrslur og snyrtilegir garðar sem saman mynda fallega heild.
Elsti íbúinn, Jóhannes Guðmundsson, 97 ára, fæddur 13. mars 1926 og býr í Suðurengi 14 og sá yngsti, Axel Ingi Svavarsson, 11 mánaða, fæddur 10. september 2022 en hann býr í Suðurengi 33 ásamt foreldrum sínum. Það eru Elínborg Telma Ágústsdóttir og Svavar Ingi Stefánsson.
Snyrtilegasta fyrirtækið er Nytjamarkaðurinn á Selfossi sem staðsettur er á Gagnheiði 32
Hvítasunnukirkjan setti á stofn Nytjamarkaðinn 1. desember 2008 og byrjaði í Kjarnanum, flutti svo á Austurveg og þaðan á Eyrarveg 5. Í upphafi árs 2021 flutti svo markaðurinn í Gagnheiðina.
Mikil vinna hefur verið lögð í að hafa snyrtilegt og fallegt við Nytjamarkaðinn auk þess sem farnar hafa verið ótroðnar slóðir í samstarfi við aðra. Má þar m.a. nefna deilihagkerfi líkt og ísskáp með mat sem er fyrir utan og einstaklingar geta sett mat í og aðrir nýtt.
Nytjamarkaðurinn veitir að auki styrki til ýmissa samfélagsverkefna og ABC barnahjálpar sem hjálpar börnum um allan heim.
Framlag til umhverfismála er veitt Netpörtum ehf.
Netpartar eru staðsettir í Byggðarhorni 38 og er Aðalheiður Jacobsen eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
Netpartar hafa lagt ríka áherslu á umhverfisvæna endurvinnslu bifreiða og fengið umhverfsivottun BSI á Íslandi. Fyrirtækið vill hámarka endurnýtingu og endurvinnslu varahluta og annars hráefnis úr bifreiðum. Þannig fái hlutirnir aftur sama hlutverk eða annað nýtt, líkt og nýsköpun og eru þá hluti af hringrásarhagkerfinu.
Netpartar verða með opið hús föstudaginn 18. ágúst nk. milli kl. 14:00 - 17:00
Eftir kosningu nefndarinnar enduðu tveir garðar efstir í flokknum “Fallegasti garðurinn” og var ákveðið að veita báðum görðunum viðurkenningu að þessu sinni.
Óseyri við Eyrarbakka en þar búa Íris Böðvarsdóttir og Karl Þór Hreggviðsson
Garðurinn var tilnefndur og kom m.a. fram að þarna væri leynd perla. Sérstaða hans er staðsetning í sveit og endurnýting fjölda hluta sem fengið hafa nýtt líf í líflegum og skemmtilegum sælureit.
Opið hús verður í Óseyri þriðjudaginn 15. ágúst kl. 16:00 - 19:00
Lyngheiði 17 á Selfossi en þar búa Agnes Ósk Snorradóttir og Björgvin Guðmundsson
Garðurinn var tilnefndur og við skoðun kom í ljós afar snyrtilegur og fallegur garður með fjölbreyttum gróðri sem mikil vinna og rækt hefur verið lögð í með metnaðarfullu starfi.
Opið hús verður í Lyngheiði 17 fimmtudaginn 17. ágúst kl. 17:00 - 19:00
myndir: Guðmundur Karl Sigurdórsson