Undirbúningur að hönnun Sigtúnsgarðs
Bæjarráð Árborgar hefur samþykkt að hefja undirbúning að endurhönnun Sigtúnsgarðs á Selfossi.
Horft verður sérstaklega til notagildi garðsins fyrir íbúa og gesti, hátíðarhalda og samtengingar við nýjan miðbæ á Selfossi. Í ferlinu verður stofnaður samráðshópur hagaðila til að vinna með hönnuði.
Í kjölfar breytinga á deiliskipulagi miðbæjar Selfoss sem samþykkt var í bæjarstjórn í júní 2023 lá fyrir að taka þyrfti upp hönnun garðsins og samræma betur m.a. við núverandi hátíðarhöld og nýjar tengingar í miðbæinn. Í tengslum við hátíðarhöldin er horft til stækkunar á svokallaðri “söngskál”, staðsetningu hátíðartjalds, leiktækja og fleira.
Sigtúnsgarður er einstaklega vel staðsettur á Selfossi og mikilvægt að hann geti áfram stutt við blómlegt menningar- og mannlíf sveitarfélagsins. Með vel heppnaðri hönnun gefst tækifæri til að auka nýtingu garðsins á öðrum tímum en þegar hátíðarhöld eru í garðinum. Bæjarráð hefur falið mannvirkja- og umhverfissviði Árborgar að útfæra tillögu að útboði eða verðkönnun fyrir hönnun Sigtúnsgarðs ásamt kostnaðaráætlun og leggja til afgreiðslu í bæjarráði. Markmiðið er að sá hönnuður sem fær verkefnið geti hafið vinnuna í lok sumars og endanleg hönnun liggi fyrir í lok árs.
Öryggisgirðing utan um núverandi framkvæmdir
Framkvæmdir í miðbæ Selfoss eru nú í fullum gangi og er verið að steypa upp verslunar- og þjónustuhús meðfram Eyravegi ásamt bílastæðahúsi þar fyrir aftan. Í næsta áfanga verður farið í gatnagerð frá Kirkjuvegi að Sigtúni ásamt byggingum meðfram nýju bílastæðahúsi og fyrir aftan Austurveg 2A (Pakkhúsið). Tillaga um öryggisgirðingu utan um framkvæmdasvæðið hefur verið samþykkt í skipulagsnefnd og liggur fyrir til afgreiðslu í bæjarstjórn 26.júní nk.
Umrædd öryggisgirðing hefur verið talsvert til umræðu en forsendur hennar eru að loka af framkvæmdasvæðið að kröfu byggingafulltrúa. Henni er ætlað að tryggja öryggi vegfarenda en að auki gerir framkvæmdaaðili gönguleið úr Sigtúnsgarðinum meðfram girðingunni að Kirkjuvegi til að auðvelda aðgengi vegfarenda inn í garðinn á framkvæmdatímanum.
Á myndinni má sjá hvernig áætluð staðsetning öryggisgirðingar liggur utan um framkvæmdasvæðið (blá lína) og síðan gönguleiða (rauð lína).