Dælustöð Vatnsveitu Árborgar - samningur undirritaður
Gleðifrétt frá Mannvirkja- og umhverfissviði Árborgar
Á meðfylgjandi mynd má sjá þá Hákon Garðar Þorvaldsson, veitustjóra Selfossveitna bs, Þórarin Úlfarsson, eiganda Gröfutækni ehf og Atla Marel Vokes, sviðsstjóra mannvirkja- og umhverfissviðs Árborgar. Tilefni myndarinnar var undirritun samnings vegna framkvæmdaverks á vegum Vatnsveitu Árborgar, í gær 10. september.
Verkið felst í því að grafa fyrir nýrri dælustöð Vatnsveitu Árborgar, fylla upp undir undirstöður hússins og leggja aðkomuveg að framkvæmdasvæði.
Hönnun dælustöðvar vatnsveitunnar er unnin af Eflu hf og mun jarðvinnuhluti framkvæmdarinnar verða unninn af Gröfutækni ehf sem varð lægstbjóðandi í verðkönnun sem fram fór í ágúst sl.
Verið er að leggja lokahönd á fullnaðarhönnun þessarar nýju dælustöðvar og einnig nýs 2.000 rúmmetra vatnstanks sem verður til viðbótar þeim vatnstanki sem er staðsettur á lóð dælustöðvarinnar. Undirbúningur fyrir útboði á uppsteypuhluta dælustöðvarinnar er vel á veg kominn og er ráðgert að uppbygging hefjist á árinu 2026.
Byggingarstjórn og framkvæmdareftirlit verður í höndum Þórðar Ásmundssonar hjá Vörðu- Verkþjónustu ehf.
Við samgleðjumst þessum góða áfanga í uppbyggingu sveitarfélagsins.